Körfubolti

„Vorum ekki að hlaupa kerfin af krafti“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Emil Barja var verulega ósáttur með frammistöðu sinna manna í kvöld.
Emil Barja var verulega ósáttur með frammistöðu sinna manna í kvöld. Vísir/Bára

Emil Barja fyrirliði Hauka var ósáttur eftir tap hans manna gegn Grindavík í HS Orku höllinni í kvöld. Haukar eru með þrjú töp á bakinu eftir fyrstu fjórar umferðirnar í Domino´s deildinni.

„Mér fannst við vera þungir. Við vorum ekki að hlaupa kerfin af krafti, við vorum ekki að koma úr blokkeringum af krafti og þær voru ekki nógu góðar hjá okkur. Sóknarleikurinn yfirhöfuð er ekki nógu góður, of einhæfur og við vorum ekki að finna það sem við vorum að leita að í kerfunum,“ sagði Emil í samtali við Vísi eftir leik.

Sóknarleikur Hauka olli þeim líka vandræðum í síðasta leik gegn Keflavík en Emil sagði stuttur tími á milli leikja ekki vera málið.

„Við erum búnir að hlaupa kerfin allan desember, við kunnum þau og vitum hvert við eigum að fara. Það er eins og við treystum því ekki að við getum fengið opin skot ef við hlaupum þau til enda.“

Emil var heldur ekki ánægður með varnarleik síns liðs í dag.

„Í raun ekki. Mér fannst við geta gert miklu betur, þeir voru að fá opin skot og róteringarnar voru oft vitlausar hjá okkur. Við vorum að hjálpa vitlausum mönnum, þeir voru að taka einföld kerfi og það kom enginn til að hjálpa. Við getum gert miklu betur.“

Haukar eru með einn sigur eftir fyrstu fjórar umferðirnar í deildinni.

„Alls ekki nein óskastaða. Við verðum bara að halda áfram. Við þurfum að treysta á kerfin, við erum með góð kerfi og við þurfum að hlaupa með einhverju markmiði. Ekki bara ein sending og skot eða ein blokkering og skot. Þetta eru kerfi sem geta gefið okkur fullt ef við bara hlaupum þau almennilega og treystum á þau.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×