Innlent

Brjóstaskurðlæknir hefur efasemdir um að seinka skimun á brjóstakrabbameini

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Brjóstaskurðlæknir hefur efasemdir um þá ákvörðun að hefja skimun fyrir brjóstakrabbameini um fimmtugt í stað fertugs. Ísland sé í aðstöðu til að gera betur og miða þjónustuna við hverja konu.

Krabbameinsskimanir voru í byrjun árs færðar frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslu og Landspítala. Konum verður þannig ekki boðið upp á brjóstaskimanir fyrr en við fimmtugt í stað fertugt eins og áður var. Rúmlega sautján þúsund manns hafa nú skrifað undir undirskriftalista þar sem þetta er harðlega gagnrýnt.

Kristján Skúli Ásgeirsson brjóstaskurðlæknir segir að mæting í skimun hér á landi hjá konum á aldrinum 40 til fimmtíu ára hafi verið léleg eða í kring um fjörutíu til fimmtíu prósent. Því sé árangurinn af skimuninni ekki góður.

„Það hefði kannski átt að leggja áherslu á að gera þetta öðruvísi og spyrja sig af hverju mætingin er svona léleg,“ segir Kristján og þá frekar bæta verkferlanna í kring um innköllun í skimun í stað þess að fylgja alþjóðlegum leiðbeiningum sem geri ráð fyrir að skimun hefjist um fimmtugt.

„Ég hef ákveðnar efasemdir um að við þurfum endilega að fylgja alþjóðlegum leiðbeiningum hvað þetta varðar. Ég held að við höfum þá sérfræðiþekkingu, bæði hvað varðar erfðafræði og sérfræðikunnáttuna, til að gera þetta á hátt sem hentar okkar samfélagi,“ segir Kristján Skúli.

Til að mynda að miða þjónustuna við hverja konu. Mikilvægt sé að finna leiðir til að finna þær konur sem greinast með krabbamein á fimmtugsaldri. 

„Þetta eru oft konurnar sem eru að fá illvígari sjúkdóma og verri krabbamein heldur en konurnar sem eru eldri,“ segir Kristján Skúli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×