Innlent

Efling segir SÍS neita að semja

Andri Eysteinsson skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir að félagsmenn muni fá kjaraleiðréttingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir að félagsmenn muni fá kjaraleiðréttingar. Vísir

Efling stéttarfélag og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa enn ekki náð saman í samningaviðræðum sínum. Í fréttatilkynningu Eflingar segir að SÍS neiti að gera kjarasamning sambærilegan þeim sem Ríkið, Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir hafi þegar gert við félagið.

Efling segir sambandið ætlast til þess að starfsfólk Kópavogsbæjar og Seltjarnarnesbæjar sem vinni sömu störf og borgarstarfsmenn geri það á verri kjörum. Efling undirritaði kjarasamning við Ríkið 7. mars og við Reykjavíkurborg 10. mars, eftir að sóttvarnaryfirvöld gáfu út hvatningu til viðsemjenda um að ganga frá samningum.

Í tilkynningunni segir einnig að SÍS hafi kallað eftir því að komið verði í veg fyrir verkfall Eflingar með lögum í stað þess að ganga til samninga.

Boðun verkfalls sem hefst á morgun var samþykkt með yfir 90% atkvæða þeirra sem afstöðu tóku í atkvæðagreiðslu, með metþátttöku. Atkvæðagreiðslan var endurtekin eftir að verkfallsaðgerðum var frestað í lok mars vegna Kórónuveirufaraldursins. Starfsfólkið sem um ræðir starfar meðal annars við þrif í grunnskólum og heimaþjónustu.

„Efling mun ekki skilja félagsmenn sína hjá Kópavogs- og Seltjarnesbæ eftir með verri kjarasamninga eingöngu af því að Sambandinu tókst að draga þessu kjaradeilu á langinn inn í Kórónuveirufaraldurinn. Hver einn og einasti félagsmaður Eflingar hjá hinu opinbera mun fá sína kjaraleiðréttingu, Kórónuveira eða ekki,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×