Innlent

Skoða hvort fallist verði á kröfu SHÍ um að fella niður skrá­setningar­gjöld

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Vísir/fréttir Stöðvar 2

Samhæfingarhópur sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur sett á laggirnar skoðar nú hvort farið verði á kröfu Stúdentaráðs Háskóla Íslands um að fellda niður skólagjöld næsta skólaárs vegna slæmrar fjárhagsstöðu stúdenta vegna kórónuveirufaraldursins. Einnig kemur til skoðunar að nemendur fái frest til að greiða gjöldin.

Stúdentaráð Háskóla Íslands fór um miðjan mánuðinn fram á að skrá­setningargjöld fyrir næsta skóla­ár verði felld niður vegna þeirrar stöðu sem uppi er í samfélaginu vegna kórónaveirufaraldursins. Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem stúdentaráð lét gera meðal háskóla­nema horfa um 43% þeirra fram á erfiða fjárhagsstöðu strax um næstu mánaðamót. Skrásetningargjaldið er 75.000 krónur og þarf að greiða fyrir 4. júlí.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir málið til skoðunar hjá stjórnvöldum. „Strax í upphafi farsóttarinnar þá fórum við í umfangsmikið samstarf við öll skólastig landsins með velferð nemenda á leiðarljósi. Samstarfið við háskólastigið og stúdentaþjónustuna hefur gengið afar vel. 

Ég vil nefna nokkrar aðgerðir sem við höfum þegar gripið til: sumarnám, sumarstörf, aukin sveigjanleiki hjá lánasjóði íslenskra námsmanna ásamt aukinni sálfræðiþjónustu. Varðandi þessa tillögu námsmanna þá höfum við sett á laggirnar mikilvægan samhæfingarhóp sem hefur það hlutverk að skoða stöðu atvinnuleitenda og námsmanna og stúdentahreyfingin mun ræða þessa tillögu sína á þessum vettvangi sem fundar núna daglega og kemur til með að skila tillögu til félags og barnamálaráðherra og til mín,“ segir Lilja.

Kemur til greina að gjöldin verði hreinlega felld niður ? 

„Þetta er allt til skoðunar akkúrat núna. Lykilatriðið er að styðja núna við grunngildi samfélagsins og þar er menntun afar mikilvægur þáttur og við erum að skoða núna hvernig við getum eflt allt sem tengist menntun og störfum framtíðarinnar þannig að allar tillögu eru skoðaðar gaugæfulega með þetta að leiðarljósi,“ segir Lilja.

En kemur til greina að nemendur fái frest til greiðslu gjaldanna sem þarf að greiða fyrir 4. júlí ?

„Við höfum verið að auka allan sveigjanleika í kerfinu okkar og þetta er eitt af því sem verður skoðað,“ segir Lilja.

Hefur þú áhyggjur af stúdentum og fjárhagsstöðu þeirra næstu mánuði? 

„Það er gríðarlega mikilvægt að við hugum að öllum þessum þáttum, stöðu stúdenta þannig þeir geti farið í sitt nám og verið þar í ákveðnu skjóli og ég eins og allir aðrir viljum leggja okkur hundrað prósent fram við að styðja við þessi lykil grunngildi íslensks samfélags og þar er staða og menntun stúdenta mjög ofarlega,“ segir Lilja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×