Atvinnulíf

Hark-hagkerfið getur nýst vel með úrræðum stjórnvalda

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Ilmur Eir Sæmundsdóttir stofnandi maur.is segir hark-hagkerfið geta nýst með úrræðum stjórnvalda.
Ilmur Eir Sæmundsdóttir stofnandi maur.is segir hark-hagkerfið geta nýst með úrræðum stjórnvalda. Vísir/Vilhelm

„Það eru kannski ekki margir sem stunda hark-hagkerfið hérlendis eins og það er stundað erlendis en það eru jú slatti af einyrkjum hérna heima og er að aukast sífellt með hverju árinu. Fólk vill vinna svolítið sjálfstætt, handvelja verkefnin og ákveða vinnutíma sinn sjálf, jafnvel vinna af hörku tíu mánuði af árinu en ferðast hina tvo,“ segir Ilmur Eir Sæmundsdóttir stofnandi maur.is. 

Hjá maur.is geta einstaklingar skráð sig sem eru tilbúnir til að ráða sig í einstök verkefni eða tímabundin störf. Slík tekjuöflun er leyfileg með hlutabótaleiðinni og getur því nýst einstaklingum sem nú eru í skertu starfshlutfalli en vilja reyna að þéna einhvern aukapening, séu verkefni í boði. 

Að sögn Ilmar er einnig hægt að nýta maur.is fyrir verkefni sem eru leyfileg samhliða fullum atvinnuleysibótum en þá er þak á því hvað vinna má sér inn hvern mánuð.

Yngra fólk þekkir hark-hagkerfið betur

Ilmur segir hark-hagkerfið, eða gig economy eins og það er kallað á ensku, vinsælla á meðal yngra fólks en þess eldra. 

„Þetta er vinsælt hjá yngri kynslóðinni en það er kannski meira eldri kynslóðin sem finnur fyrir dyggð og öryggi í því að mæta alltaf til vinnu níu til fimm, vita nákvæmlega réttindi sín og hafa allt tipp topp“ segir Ilmur og bætir við „það vinnur mikið og vill borga niður skuldir og horfir til lengri tíma á meðan yngri kynslóðin lifir meira í núinu.“

Hún segir þó mögulegt að þetta breytist í kjölfar kórónuveirunnar þar sem hark-hagkerfið gæti farið að nýtast fleirum. Margir séu að verða fyrir tekjutapi með skertu starfshlutfalli eða uppsögnum. 

„Á móti vona ég að fyrirtæki geti byrjað að nýta sér verktaka og harkara meira því það vill kannski frekar ráða aðila í tímabundið starf í tímabundin verkefni og sleppa því að þurfa ráða aðila í fullt starf sem það hefur jafnvel ekki verkefni fyrir allt árið kring,“ segir Ilmur.

Ilmur segir yngra fólk þekkja hark-hagkerfið betur en það eldra. Það gæti þó breyst í kjölfar kórónufaraldurs.Vísir/Vilhelm

Getur nýst samhliða úrræðum stjórnvalda

„Ríkið hefur sett saman fína aðgerðarpakka sem leyfir fyrirtækjum að minnka starfshlutfall starfsmanna niður í 25% og það getur farið á hlutabætur sem er að sjálfsögðu ekki frábær staða fyrir launþegan,“ segir Ilmur og bætir við „En það sem fólk kannski gerir sér ekki grein fyrir er að þegar það fer á þessar hlutabætur sem er sérstakt úrræði á þessum sérstöku tímum, þá skerðast ekki bæturnar þó það myndi taka að sér önnur verkefni eða störf.“

Að sögn Ilmar má einstaklingur sem var í 100% starfi hjá fyrirtæki en er nú í 25% skertu starfshlutfalli og fær greiddar hlutabætur taka að sér önnur verkefni á meðan, séu þau til staðar. Þetta geti til dæmis átt við fólk sem hefur starfað við forritun, sem bókarar, þjálfarar, kennarar og fleira.

„Staðan er önnur ef fólk er á 100% atvinnuleysisbótum en þá má einungis taka að sér auka störf upp að frítekjumarki sem eru rúmlega sjötíu þúsund krónur á mánuði,“ segir Ilmur og skýrir þessa útreikninga nánar út með eftirfarandi dæmi:

»Ef aðili er á atvinnuleysisbótum og fer X yfir frítekjumarki þá skerðast atvinnuleysisbætur um X/2. 

»Þetta þýðir að ef aðili þénar 100.000 krónur og frítekjumark er 71.262krónur þá myndu atvinnuleysisbæturnar skerðast um 14.369 krónur, það er 100.000-71.262= 28.738/2=14.369.

Ilmur segir fleira í aðgerðarpakka stjórnvalda geta nýst fólki sem er tilbúið í tímabundin verkefni eða vinnu.

„Annað sem vonandi kemur gott úr efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar er að einstaklingar geta fengið 100% endurgreiðslu af virðisaukaskatti vegna heimilisaðstoðar, bílaviðgerða og vinnu iðnaðarmanna vegna endurbóta og viðhalds auk nýbyggingar fasteignar,“ segir Ilmur.

Hvernig upplýsingar skráir maður um sjálfan sig á maur.is?

„Þegar fólk skráir sig á Maur þá velur það undir hvaða starfsflokki það á heima en þeir geta verið fleiri en einn. Svo skrifar það sjálft starfsheiti og þar er hægt að taka fram sérhæfingu sína.

Annars fyllir fólk inn lýsingu á sjálfum sér og ef það skrifar til dæmis markaðsmál eða excel í lýsingu sinni þá kemur prófíll þeirra upp þegar einhver leitar að þessum skilyrðum á síðunni,“ segir Ilmur.

Hún mælir með því að fólk vandi sig við upplýsingaskráninguna að hvetur verkkaupa til að gefa viðkomandi umsögn.

„Við hvetjum fólk til að vera með ítarlega og góða lýsingu á sér og þeirri þjónustu sem það er að bjóða upp á, ásamt mynd, ferilskrá og kontakt upplýsingum. Þetta allt hjálpar við það að næla sér í verkefni,“ segir Ilmur og bætir við í lokin „Svo þegar aðili hefur ráðið þig í verkefni eða tímabundið starf þá getur verkkaupi gefið ummæli og við hvetjum til þess.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×