Fótbolti

Á leið í fangelsi fyrir að fara úr sóttkví?

Sindri Sverrisson skrifar
Luka Jovic hefur ekki tekist að slá í gegn hjá Real Madrid.
Luka Jovic hefur ekki tekist að slá í gegn hjá Real Madrid. VÍSIR/GETTY

Innanríkisráðherra Serbíu hefur gagnrýnt Luka Jovic, framherja Real Madrid, harðlega en Jovic gæti átt yfir höfði sér fangelsisdóm fyrir að fara á svig við lög um heimasóttkví vegna kórónuveirunnar.

Jovic, sem er 22 ára gamall, kom til Belgrad frá Madrid í síðustu viku til að vera með kærustu sinni. Í ljósi þess að hann kom til Serbíu frá skilgreindu smithættusvæði átti hann lögum samkvæmt að vera í heimasóttkví í 28 daga. Myndir náðust hins vegar af honum á götum Belgrad þar sem hann fagnaði afmæli kærustu sinnar.

Yfir 17.000 manns hafa smitast vegna kórónuveirunnar á Spáni og 767 látist, og skeytingarleysi Jovic féll eins og fyrr segir illa í kramið hjá Nebojsa Stefanovic, innanríkisráðherra Serbíu.

„Það að þeir séu þekktir íþróttamenn, og að þeir séu ríkir, mun ekki koma í veg fyrir að þeim sé refsað,“ sagði Stefanovic án þess þó að nefna Jovic sérstaklega á nafn. „Annað hvort virða þeir lögin eða þeir fara í fangelsi,“ bætti hann við, og sagði að menn ættu yfir höfði sér 1-12 ára fangelsisdóm fyrir brot á lögum um heimasóttkví.


Tengdar fréttir

Spænska úrvalsdeildin frestar næstu tveimur umferðum

Spænska úrvalsdeildin í knattspyrnu hefur ákveðið að fresta næstu tveimur umferðum ótímabundið eftir að allir leikmenn Real Madrid voru sendir í sóttkví þar sem leikmaður körfuboltaliðs félagsins hefur greinst með kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×