Erlent

Tilkynningum um barnaníðsefni gæti fækkað um 70% ef ný Evrópulöggjöf tekur gildi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Internet fyrirtækin hafa hingað til unnið með lögreglu í baráttunni gegn barnaníð.
Internet fyrirtækin hafa hingað til unnið með lögreglu í baráttunni gegn barnaníð. Pixabay

Svo kann að fara að internetfyrirtækjum verður ekki lengur heimilt að nota búnað sem ber kennsl á mögulegt barnaníðsefni. Ástæðan eru ný persónuverndarlög í Evrópu en viðræður standa yfir um undanþágur til handa fyrirtækjunum.

Sérfræðingar í málefnum er varða öryggi barna segja að ef ekki tekst að ná lendingu í málinu gætu nýju lögin orðið til þess að barnaníðingar eiga auðveldara með að stunda iðju sína á netinu.

Hugur Evrópuþingsins hefur staðið til þess að vernda samskipti venjulegra borgara frá eftirliti internetfyrirtækja en sömu reglur gætu orðið til þess að fyrirtækin geta ekki lengur notað búnað til að leita sjálfkrafa að barnaníðsefni sem fer um kerfi þeirra.

Umræddur búnaður getur meðal annars borið kennsl á nýjar myndir sem lögregluyfirvöld hafa ekki orðið vör við áður og samtöl sem bera þess merki að vera á milli geranda og þolanda.

Óttast að magn barnaníðsefnis á netinu aukist mjög

Sérfræðingar og samtök sem vinna í þágu barna óttast að löggjöfin muni að óbreyttu auðvelda gerendum að komast í samband við börn og að magn barnaníðsefnis á netinu muni aukast.

Þeir óttast að tilkynningum internetfyrirtækja til löggæsluyfirvalda muni fækka um allt að 70% en í fyrra bárust National Centre for Missing and Exploited Children í Bandaríkjunum nærri 17 milljón tilkynningar, þeirra á meðal ábendingar um mögulega misnotkun í Evrópu.

Meðal gagnrýnenda laganna er William Barr, fráfarandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sem segir lögin munu ógna alþjóðlegum viðbrögðum við alþjóðlegum glæpum.

BBC fjallar um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×