Erlent

Annar tví­burinn hand­tekinn í tengslum við demanta­rán

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fjölda ómetanlegra muna úr Green Vault safninu í Dresden í Þýskalandi var rænt í fyrra.
Fjölda ómetanlegra muna úr Green Vault safninu í Dresden í Þýskalandi var rænt í fyrra. Getty/Sebastian Kahnert

Lögreglan í Þýskalandi hefur handtekið annan tvíburabróðurinn sem auglýst hefur verið eftir í tengslum við rán sem framið var í Grænu hvelfingunni í Dresden. Bræðurnir höfðu verið á flótta frá því að ránið var framið.

Lögregluyfirvöld segja að Mohammed Remmo, 21 árs gamall, hafi verið handtekinn í Berlín. Hann er sá fjórði sem hefur verið handtekinn í tengslum við ránið sem framið var í fyrra. Ræningjarnir eru sakaðir um að hafa stolið meira en tugi demantshúðaðra hluta af safninu.

Yfirvöld hafa sagt að ómögulegt sé að verðsetja hlutina sem var stolið, þeir séu ómetanlegir.

Safnið má rekja aftur til Ágústusar sterka konungs Saxlands, en hann hóf að safna fjölda muna árið 1723. Safnið er eitt það elsta í heiminum.

Lögreglan handtók Remmó í Berlín í gærkvöldi en hann var fluttur til Dresden í dag. Leitin að bróður hans, Abdul Majed Remmo, heldur áfram og er hans leitað af ákafa.

Bræðranna hefur verið leitað alþjóðlega frá því að þeir sluppu frá lögreglu í síðasta mánuði. Lögreglan hafði framkvæmt yfirgripsmikla aðgerð þar sem þrír grunaðir voru handteknir.

Hinir fimm grunuðu eru sakaðir um að hafa framið alvarlegt rán og fyrir að hafa framkvæmt tvær íkveikjur. Þá hefur lögregla haldið því fram að fimmmenningarnir séu hluti af glæpasamtökum sem halda til í Berlín.

Fyrr á þessu ári voru aðrir meðlimir Remmo fjölskyldunnar sakfelldir fyrir annað rán. Höfðu þau rænt hundrað kílóum af hreinum gullmyntum frá Bode safninu í Berlín árið 2017.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×