Innlent

Stuðningurinn víðtækari en fréttir gefi til kynna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Umhverfisráðherra er bjartsýnn á að frumvarp hans um miðhálendisþjóðgarð nái fram að ganga. 
Umhverfisráðherra er bjartsýnn á að frumvarp hans um miðhálendisþjóðgarð nái fram að ganga.  Vísir/Vilhelm

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir stuðning við hugmyndir sínar um miðhálendisþjóðgarð víðtækari en fréttir gefi til kynna. Hann hyggst mæla fyrir frumvarpinu eftir helgi og er vongóður að það nái fram að ganga.

Deildar meiningar hafa verið um frumvarp um miðhálendisþjóðgarð að undanförnu. Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks, lýsti því yfir í vikunni að frumvarpið sé í fullkominni andstöðu við þau sveitarfélög sem eigi hlut að máli og að ráðherranum hafi mistekist að ná nauðsynlegri sátt um málið.

„Ég hef haft mjög víðtækt samráð við sveitarfélögin og veit að það er miklu meiri stuðningur við málið þar heldur en áður. Sérstaklega vegna þess að við höfum gert úrbætur á því sem snýr að skipulagsvaldi sveitarfélaganna og mætt þeim kröfum sem þau voru með uppi þar. Þannig að ég held að stuðningurinn sé mun víðtækari heldur en fréttir síðustu daga hafa gefið til kynna,“ segir Guðmundur.

Næstu skref séu að mæla fyrir frumvarpinu.

„Ég ber vonir til þess að við klárum þetta í vor því þetta er gríðarlega mikilvægt, bæði upp á að vernda þessa einstæðu náttúru sem er á hálendinu en líka vegna þess að þarna eru einstök tækifæri þegar kemur að því að vinna ferðaþjónustuna út úr covidfaraldrinum og að efla opinber störf og þjónustu og tækifæri fyrir ferðaþjónustuna og fleiri atvinnugreinar úti á landi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×