Erlent

Arecibo-útvarpssjónaukinn hruninn

Kjartan Kjartansson skrifar
Gervihnattarmynd af Arecibo-útvarpssjónaukanum 17. nóvember. Móttökutækið sést hanga yfir miðju disksins. Það hrundi endanlega í dag.
Gervihnattarmynd af Arecibo-útvarpssjónaukanum 17. nóvember. Móttökutækið sést hanga yfir miðju disksins. Það hrundi endanlega í dag. Vísir/AP

Móttökutæki Arecibo-útvarpssjónaukans á Púertó Ríkó hrundi meira en 120 metra niður á endurvarpsdisk hans í dag. Nýlega var ákveðið að taka sjónaukann úr notkun vegna skemmda sem höfðu orðið á honum.

Arecibo-útvarpssjónaukinn var stærsti útvarpssjónauki heims með 305 metra breiðan endurvarpsdisk um áratugaskeið. Mikilvægar uppgötvanir í stjörnufræði voru gerðar með sjónaukanum, þar á meðal á svonefndum tifstjörnum sem leiddi til Nóbelsverðlauna í eðlisfræði.

Engan sakaði þegar móttökutækið hrundi. Vísindasjóður Bandaríkjanna, sem hefur rekið sjónaukann, sagði á Twitter að unnið væri að því að meta ástand sjónaukans.

Burðarkaplar sjónaukans urðu fyrir skemmdum í röð fellibylja og jarðskjálfta sem hafa dunið á Púertó Ríkó undanfarin ár. Einn þeirra slitnaði í ágúst og myndaðist þá þrjátíu metra breitt gat í diskinn. Annar og mikilvægari kapall brást snemma í nóvember. Skömmu síðar var tekin ákvörðun um að taka sjónaukann varanlega úr notkun.

Vísindamenn sem nýttu sér sjónaukann harma endalok hans, að sögn AP-fréttastofunnar. Carmen Pantoja, stjörnufræðingur og prófessor við Háskólann á Púertó Ríkó, segir mikinn missi í sjónaukanum.

„Þetta var kafli í lífi mínu,“ segir Pantoja sem gerði athuganir fyrir doktorsverkefni sitt með sjónaukanum.

Abel Méndez, prófessor í stjörnulíffræði við sama háskóla, tekur í svipaðan streng.

„Heimurinn tapar án sjónaukans en Púertó Ríkó tapar enn meiru,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×