Fótbolti

Liðin sem verða með Íslandi í B-deild næstu Þjóðadeildar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Byrjunarlið Íslands á Wembley í gær hlustar á íslenska þjóðsönginn fyrir leikinn.
Byrjunarlið Íslands á Wembley í gær hlustar á íslenska þjóðsönginn fyrir leikinn. Getty/Michael Regan

Ísland er fallið úr A-deild Þjóðadeildarinnar og eftir gærkvöldið er næstum því ljóst hvaða lið munu spila með íslensku strákunum í B-deild næstu Þjóðadeildar.

Ísland er eitt af fjórum liðum sem féll úr A-deildinni en hin eru Bosnía, Svíþjóð og svo annað hvort Sviss eða Úkraína. Leikur Úkraínu og Sviss fór ekki fram vegna kórónusmits og Sviss mun falla nema ef liðinu er dæmdur sigur í leiknum.

Í staðinn komust upp í A-deildina Austurríki, Tékklandi, Ungverjaland og Wales.

Liðin sem féllu úr B-deild niður í C-deild eru Norður-Írland, Slóvakía, Tyrkland og Búlgaría en þau verða því ekki mögulegir mótherjar íslenska landsliðsins í næstu Þjóðadeildar.

Íslenska landsliðið gæti aftur á móti mætt Svartfjallalandi, Armeníu, Slóveníu eða Albaníu sem komust öll upp í B-deildina.

Færeyjar og Gíbraltar komust upp úr D-deildinni og spila næst í C-deildinni. Fjögur lönd spila um að forðast það að falla úr C-deildinni en tvö af Kýpur, Eistlandi, Moldóvu eða Kasakstan munu falla úr C-deildinni.

Lokaúrslit Þjóðadeildarinnar munu fara fram í október 2021 og þar munu spila Ítalía, Belgía, Frakkland og Spánn. Það er búist við því að úrslitakeppnin fari fram á Ítalíu.

Hér fyrir neðan má sjá hvaða sextán þjóðir verða með Íslandi í B-deildinni í Þjóðadeildinni 2022–23 en íslenska landsliðið fær þrjú af þeim í sinn riðil.

Liðin í B-deild Þjóðadeildarinnar 2022–23:

  • Ísland
  • Sviss eða Úkraína
  • Svíþjóð
  • Bosnía
  • Finnland
  • Noregur
  • Skotland
  • Rússland
  • Rúmenía
  • Ísrael
  • Serbía
  • Írland
  • Slóvenía
  • Svartfjallaland
  • Albanía
  • Armenía



Fleiri fréttir

Sjá meira


×