Fótbolti

Áskorun að mæta mikið breyttu íslensku liði

Sindri Sverrisson skrifar
Gareth Southgate tekur í spaðann á Guðlaugi Victori Pálssyni eftir landsleik Íslands og Englands á Laugardalsvelli í september, sem England vann 1-0.
Gareth Southgate tekur í spaðann á Guðlaugi Victori Pálssyni eftir landsleik Íslands og Englands á Laugardalsvelli í september, sem England vann 1-0. Getty/Hafliði Breiðfjörð

Gareth Southgate segir það áskorun fyrir enska landsliðið hve miklar breytingar hafi orðið á íslenska liðinu frá því í 1-0 sigri Englands á Laugardalsvelli í september.

Enski landsliðsþjálfarinn ræddi við fjölmiðlamenn á Wembley í dag í gegnum fjarfundabúnað, fyrir leikinn við Íslands sem þar fer fram annað kvöld. Ísland hefur tapað öllum sínum leikjum í Þjóðadeildinni en var nálægt því að ná í stig gegn Danmörku og Belgíu í síðustu leikjum, þegar liðið notaði 3-5-2 leikkerfi.

Ísland hefur verið þekkt fyrir sitt 4-4-2 leikkerfi sem liðið notaði í úrslitaleiknum við Ungverjaland síðasta fimmtudag.

„Mér fannst mjög áhugavert að sjá nýja uppstillingu Íslands í síðustu tveimur Þjóðadeildarleikjum, nýjan leikstíl og nýja leikmenn. Þetta var mjög ólíkt því sem við höfum séð áður. Fimm í vörn, og spilað úr vörninni. Þetta er áskorun fyrir okkur á morgun,“ sagði Southgate í dag. Hann kvaðst ekki reikna með „lúnu“ íslensku liði þó að það hefði spilað tvo erfiða mótsleiki á síðustu dögum, en England einn mótsleik og einn vináttulandsleik.

Gareth Southgate og Steve Holland aðstoðarmaður hans.Getty/John Berry

„Ég held að allir séu klárir í slaginn. Það voru talsvert miklar breytingar á [íslenska] liðinu á milli síðustu tveggja leikja. Það eru líka góðir, ungir leikmenn að koma inn, svo ég er viss um að þeir verða tilbúnir í leikinn,“ sagði Southgate, og vísaði til þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á íslenska liðinu.

Aron Einar Gunnarsson, Alfreð Finnbogason, Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Ragnar Sigurðsson og Viðar Örn Kjartansson eru farnir heim og Hörður Björgvin Magnússon tekur út leikbann á morgun. Þeirra í stað komu inn menn úr U21-landsliðinu, sem er svo nálægt því að komast í lokakeppni EM en þarf að treysta á önnur úrslit í dag og á morgun. Alfons Sampsted, Jón Dagur Þorsteinsson, Andri Fannar Baldursson, Sveinn Aron Guðjohnsen og Ísak Bergmann Jóhannesson eru mættir til Englands.

Leikur Íslands og Englands hefst klukkan 19:45 á morgun og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×