Fótbolti

Sch­meichel slapp vel frá sam­stuðinu við Albert og æfði í dag

Anton Ingi Leifsson skrifar
Schmeichel liggur í valnum eftir samstuðið í gær.
Schmeichel liggur í valnum eftir samstuðið í gær. Lars Ronbog / FrontZoneSport

Kasper Schmeichel, markvörður danska landsliðsins, æfði með danska liðinu í dag en hann varð að fara af velli í hálfleik í leiknum gegn Íslandi í gærkvöldi.

Undir lok fyrri hálfleiks þá lenti markvörðurinn í samstuði við Albert Guðmundsson sem reyndi að ná til knattarins. Hann kláraði fyrri hálfleikinn en kom ekki út í þann síðari.

Klippa: Samstuð Alberts og Schmeichel

Einhverjir óttuðust að höggið hefði verið það þungt að Kasper gæti ekki spilað með Dönum gegn Belgíu í Þjóðadeildinni á miðvikudagskvöldið en svo virðist ekki vera.

Kasper Hjulmand, þjálfari danska landsliðsins, greindi frá þessu í samtali við blaðamenn í dag.

„Hann svaf vel og hefur það fínt. Hann er með hérna í dag; fá sér smá ferskt loft og æfir aðeins. Svo sjáum við hvernig hann verður á morgun,“ sagði Hjulmand.

„En þegar maður talar um höfuð- og hálsmeiðsli verður maður auðvitað að vera hundrað prósent viss um að það hafi ekki gerst eitthvað alvarlega. Þetta lítur vel út núna en ég er ekki alveg viss.“

Danmörk og Belgía mætast í Belgíu á miðvikudagskvöldið. Leikurinn er úrslitaleikur um toppsætið í riðlinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×