Innlent

Hátt í eitt hundrað umsóknir um hlutdeildarlán á einni viku

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Vísir/vilhelm

Áttatíu og níu umsóknir um hlutdeildarlán hafa borist Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á rúmri viku, eða frá því að opnað var fyrir umsóknir þann 1. nóvember.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir að ekki sé búið að flokka umsóknir og greina hversu margar séu vegna fasteignakaupa á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Fyrsta umsóknartímabil gildir til 20. nóvember og úthlutað verður samkvæmt því í byrjun desember.

Lánin eru hluti af stuðningi stjórnvalda vegna lífskjarasamninga og er þeim ætlað að auðvelda ungum og tekjulágum að kaupa sína fyrstu eign. Lánið getur numið um fimmtungi af kaupverði og ekki þarf að greiða af því í allt að tuttugu ár. Lánið þarf hins vegar að greiða upp þegar íbúð er seld. 

Unnið hefur verið að breytingum á reglugerð um hlutdeildarlán í félagsmálaráðuneytinu í liðinni viku en fjölmargar athugasemdir bárust um drögin þegar þau voru birt í samráðsgátt stjórnvalda. Í viðtali við fréttastofu sagði Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, að ekki stæði til að breyta grundvallaratriðum hennar. Breytingar á ákveðnum „upphæðarmörkum og  samspili við úthlutanir“ kæmu þó til greina.

Reykjavíkurborg hefur meðal annars bent á að líklega verði lítið um úthlutanir á höfuðborgarsvæðinu á næstu misserum þar fáar íbúðir uppfylli skilyrði lánanna. Á landsbyggðinni er hins vegar einnig lánað fyrir eldri fasteignum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×