Fótbolti

Maradona á góðum batavegi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Diego Maradona hefur stýrt Gimnasia y Esgrima síðan í fyrra.
Diego Maradona hefur stýrt Gimnasia y Esgrima síðan í fyrra. getty/Gustavo Garello

Diego Maradona er á góðum batavegi eftir að hafa gengist undir aðgerð vegna blóðtappa í heila.

„Þetta hefur gengið mjög vel,“ sagði Dr. Leopoldo Luque, læknir argentínska fótboltasnillingsins.

„Hann hló, horfði á mig og tók í höndina á mér. Fyrstu viðbrögð eru jákvæð,“ bætti læknirinn við.

Maradona var fluttur á spítala í La Plata, fyrir utan Buenos Aires, á mánudaginn vegna slappleika. Hann fór í sneiðmyndatöku og þá uppgötvaðist blóðtappinn. Maradona fór í kjölfarið í aðgerð sem gekk vel.

Maradona verður eitthvað lengur á spítalanum og undir nánu eftirliti lækna meðan hann jafnar sig eftir aðgerðina.

Maradona fagnaði sextíu ára afmæli sínu á föstudaginn. Hann var heiðraður fyrir leik liðsins sem hann þjálfar, Gimnasia y Esgrima, en þurfti svo frá að hverfa vegna slappleika.

Stuðningsmenn Gimnasia y Esgrima söfnuðust saman fyrir utan spítalann í La Plata til að sýna Maradona stuðning. Þegar fréttir bárust af því að aðgerðin hefði gengið vel kyrjuðu stuðningsmennirnir nafn Maradonas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×