Innlent

Fimm yngri en á­tján ára farið í brjósta­stækkun síðustu ár

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Líneik óskaði m.a. eftir upplýsingum um það hversu margar lýtaaðgerðir hefðu verið gerðar á skapabörmum stúlkna undir 18 ára aldri síðustu tíu ár.
Líneik óskaði m.a. eftir upplýsingum um það hversu margar lýtaaðgerðir hefðu verið gerðar á skapabörmum stúlkna undir 18 ára aldri síðustu tíu ár. Vísir/getty

Ellefu aðgerðir á skapabörmum stúlkna undir 18 ára aldri eru skráðar hjá heilbrigðisstofnunum landsins á tímabilinu 2011-2019. Þá hafa fimm stúlkur yngri en átján ára gengist undir brjóstastækkun á sama tímabili.

Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Líneikar Önnu Sævarsdóttur þingmanns Framsóknarflokksins sem birt var á vef Alþingis í dag.

Líneik óskaði m.a. eftir upplýsingum um það hversu margar lýtaaðgerðir hefðu verið gerðar á skapabörmum stúlkna undir 18 ára aldri síðustu tíu ár.

Fram kemur í svari ráðherra að engar aðgerðir á skapabörmum stúlkna hafi verið skráðar á legudeildum á síðustu tíu árum. Gögn frá ferlideildum ná hins vegar aftur til ársins 2011 og á tímabilinu 2011–2019 voru skráðar ellefu slíkar aðgerðir þar hjá stúlkum undir 18 ára aldri.

Þá hafi það verið vandkvæðum bundið að fá gögn frá sjálfstætt starfandi lýtaskurðlæknum og „gögn um efni spurningarinnar því ekki þekjandi,“ segir í svari ráðherra. Engar lýtaaðgerðir á skapabörmum eru skráðar hjá stúlkum undir 18 ára aldri í þeim gögnum sem lýtaskurðlæknar hafa skilað inn til embættis landlæknis á tímabilinu 2012–2017.

Fimm stúlkur hafa gengist undir brjóstastækkun á tímabilinu 2011-2019, samkvæmt tölum úr vistunarskrá heilbrigðisstofnana. Tvær voru sextán ára þegar aðgerðin var gerð en hinar þrjár sautján ára. Þá hafa níu stúlkur farið í brjóstaminnkun á tímabilinu, þrjár sextán ára og sex sautján ára, og fimm stúlkur gengist undir annars konar lýtaaðgerðir á brjósti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×