Innlent

Kynna áform um stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Jörðin Dynjandi er innan þess svæðis sem til stendur að friðlýsa með stofnun þjóðgarðs.
Jörðin Dynjandi er innan þess svæðis sem til stendur að friðlýsa með stofnun þjóðgarðs. Vísir/Vilhelm

Umhverfisstofnun hefur kynnt áform um stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum. Svæðið sem til stendur að friðlýsa nær meðal annars til Vatnsfjarðar, Surtarbrandsgil, Geirþjófsfjarðar og jarðanna Dynjanda og Hrafnseyrar við Arnarfjörð. Unnið er að undirbúningi friðlýsingarinnar að því er fram kemur í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Rarik færði ríkinu jörðina Dynjanda að gjöf í september í fyrra en við undirritun samkomulags vegna gjafarinnar staðfestu stjórnvöld að stefnt skildi að friðlýsingu jarðarinnar og vatnasviðs fossins á Dynjandisheiði.

„Á Íslandi eru fáir þjóðgarðar, ekki síst miðað við hversu stórfenglega náttúru hér er að finna. Þjóðgarðarnir okkar þrír hafa hver sína sérstöðu þar sem náttúruverðmæti, saga og menning tvinnast saman í órjúfanlega heild. Einhvern tímann heyrði ég þá líkingu að þjóðgarðar væru eins og betri stofan; þar eru okkar fínustu djásn sem við viljum vernda, þar njótum við samveru og upplifunar ásamt því að bjóða þangað gestum,“ er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra í tilkynningu.

„Ég sé mikil tækifæri í stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum, ekki síst fyrir vernd náttúru og menningar okkar, en líka vegna tækifæra til atvinnusköpunar sem felast í þessu aðdráttarafli fyrir landshlutann í heild sinni, enda svæðið einstakt og ólíkt öðrum svæðum þar sem í dag eru þjóðgarðar.“

Rauða línan markar tillögu að mörkun þjóðgarðsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×