Formúla 1

Hamilton segir ekkert öruggt með framtíð sína

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gæti Lewis Hamilton kallað þetta gott þegar þessu keppnistímabili lýkur?
Gæti Lewis Hamilton kallað þetta gott þegar þessu keppnistímabili lýkur? Bryn Lennon/Getty Images

Lewis Hamilton, einn besti ökumaður Formúlu 1 frá upphafi, segir ekki endilega öruggt að hann verði áfram hjá bílaframleiðandanum Mercedes er samningu hans rennur út eftir yfirstandandi keppnistímabil.

Hamilton vann í gær enn einn sigurinn í Formúlu 1. Hann er nú við það að jafna met Michael Schumacher yfir fjölda heimsmeistaratitla. Allt stefnir í sjöunda titil Hamilton sem væri jöfnun á meti þýsku goðsagnarinnar. Þrátt fyrir það segist Hamilton ekki viss um að hann verði enn í Formúlu 1 árið 2021.

Hamilton var spurður út í mögulegt brotthvarf Toto Wolff, sá er mikilvægur hlekkur í Mercedes-keðjunni og óvíst hvað gerist fari svo að hann stígi til hliðar.

„Ég veit ekki einu sinni hvort ég verði hérna á næsta ári svo það er ekki beint áhyggjuefni fyrir mig að svo stöddu,“ svaraði Hamilton.

„Ég myndi vilja vera hérna áfram á næsta ári en það er ekkert öruggt hvað það varðar. Það er mikið sem heillar mig við eftir lífið. Svo tíminn mun leiða í ljós hvað gerðist,“ sagði heimspekilegur Hamilton eftir kappakstur gærdagsins.

Hann á eflaust við lífið eftir Formúlu 1 – það er er hann hættir keppni – frekar en lífið eftir lífið sjálft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×