Erlent

Íslendingur á flótta grunaður um barnaníð handtekinn á Spáni

Tryggvi Páll Tryggvason og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Lögreglan á Spáni handtók manninn.
Lögreglan á Spáni handtók manninn. Lögreglan á Spáni

Lögreglan á Spáni hefur handtekið íslenskan karlmann búsettan í Danmörku sem grunaður er um að hafa misnotað dóttur sína kynferðislega.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá spænsku lögreglunni sem gefin var út í dag. Þar segir að dönsk yfirvöld hafi gefið út evrópska handtökuskipun á hendur manninum eftir að hann flúði land.

Maðurinn var sakaður um að hafa neytt dóttur sína til þess að hafa við sig kynferðismök í alls tíu skipti.

Brotin eru sögð hafa verið framin á árunum 2006 til 2010 á Íslandi og í Danmörku. Maðurinn var einnig sakaður um að hafa beitt dóttur sína ofbeldi til þess að ná vilja sínum fram gegn henni.

Óljóst er hvort maðurinn hafi þegar verið dæmdur fyrir brot sín eða bíði dóms.

Þannig segir í tilkynningu spænsku lögreglunnar að maðurinn hafi verið dæmdur til tólf ára fangelsisvistar í Danmörku fyrir brotin, sem sögð eru hafa verið framin er dóttir hans var yngri en tólf ára. Þá á hann einnig að hafa verið sakfelldur fyrir vörslu barnaníðsefnis.  

Í frétt BT í Danmörku segir að maðurinn hafi flúið land áður en að dómur féll í máli hans.

Í tilkynningu lögreglunnar á Spáni segir að hún hafi komið að málinu í sumar þegar fram kom beiðni um aðstoð frá dönsku lögreglunni.

Síðustu daga hafi aðgerðir lögreglunnar í bænum Benissa á Alicante á Spáni hafi skilað sér í því að maðurinn var handtekinn í grennd við aðsetur hans þar.

Uppfært 27. maí 2021

Í fjölmiðlum í Danmörku kemur fram að saksóknari í málinu fari fram á að lágmarki fjögurra ára fangelsi yfir karlmanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×