Innlent

Fleiri sýni tekin í Tröllaskagahólfi en ekki grunur um smit á fleiri bæjum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Svo gæti farið að fella þurfi um þrjú þúsund kindur í Tröllaskagahólfi. 
Svo gæti farið að fella þurfi um þrjú þúsund kindur í Tröllaskagahólfi.  Vísir/Vilhelm

Enn er óvíst hvort grunur sem vaknaði um riðusmit á fleiri bæjum í Tröllaskagahólfi hafi reynst á rökum reistur en eins og greint var frá fyrir helgi er talið líklegt að sjúkdóminn sem fyrst greindist á bænum Stóru Ökrum sé einnig að finna á þremur öðrum bæjum á svæðinu.

Enn er beðið eftir niðurstöðum úr sýnatöku á þremur bæjum í Tröllaskagahólfi þar sem grunur leikur á riðusmiti. Héraðsdýralæknir segir fleiri sýni hafa verið send til rannsóknar, þótt ekki sé rökstuddur grunur um frekara smit. Allur sé þó varinn góður.

Betra að hafa vaðið fyrir neðan sig

Héraðsdýralæknir Norðurlands, Jón Kolbeinn Jónsson, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að ekki sé von á niðurstöðum frá rannsóknarstöðinni að Keldum fyrr en seint á morgun. Fleiri sýni hafa að sögn Jóns einnig verið send en þó vildi hann ekki ganga svo langt að segja að þar sé grunur um smit. Betra sé að hafa vaðið fyrir neðan sig og láta greina meira en minna. Að sögn Jóns hafa bændur margir haft samband og lýst áhyggjum af því að smit gæti leynst í gripum þeirra, en oft sé um eitthvað annað að ræða en riðu. Menn séu meira á varðbergi nú, eftir að riðusmitið kom upp. Að sögn Jóns búa menn sig nú undir að niðurstaðan úr sýnatökunni frá bæjunum þremur verði jákvæð og reyna nú að koma höndum á gripi sem hafi verið fluttir af þeim bæjum og á aðra í sveitinni.

Niðurskurður enn ekki hafinn

Niðurskurður er ekki hafinn á Stóru Ökrum þar sem sjúkdómurinn greindist fyrst og segir Jón Kolbeinn að fyrirskipun um slíkt hafi enn ekki borist. Ef svo fer, að riða finnist á hinum bæjunum þremur, þá er útlit fyrir að það þurfi að fella um þrjú þúsund kindur og lömb. Bæirnir eru allir í Tröllaskagahólfi og segir Jón Kolbeinn allt gert til að hefta frekari útbreiðslu.


Tengdar fréttir

„Þetta er harm­leikur“

Bóndi á bænum Grænumýri á Tröllaskaga, sem sér fram á að þurfa að farga hátt í 1100 fjár vegna riðu sem greindist í hrúti á bænum, segir það harmleik. Samfélagið sé lamað eftir þennan mikla skell.

Stefnir í að fella þurfi þrjú þúsund fjár

Sterkur grunur er um riðusmit á þremur bæjum á Tröllaskaga til viðbótar við Stóru Akra 1 þar sem smit varð staðfest í vikunni. Alls er um að ræða tæplega þrjú þúsundur kindur og lömb.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×