Innlent

Kafarar könnuðu ástand togarans í höfninni

Kjartan Kjartansson skrifar
Drangur í hálfu kafi í höfninni í Stöðvarfirði í dag.
Drangur í hálfu kafi í höfninni í Stöðvarfirði í dag. Landhelgisgæslan

Þrír kafarar Landhelgisgæslunnar könnuðu ástand togarans Drangs ÁR 307 sem sökk í höfninni í Stöðvarfirði í morgun. Þá kom áhöfn varðskipsins Þórs upp mengunarvarnargirðingu til að hafa hemil á mögulegri olíumengun frá skipinu.

Varðskipið Þór var statt í Fáskrúðsfirði þegar útkall vegna togarans á Stöðvarfirði barst í morgun. Hluti áhafnar varðskipsins fór þá á léttbát Þórs á kom fyrir girðingunni í samstarfi við slökkviliðs- og björgunarsveitarmenn, að því er kemur fram í Facebook-færslu Landhelgisgæslunnar.

Kafararnir könnuðu svo ástand skipsins neðansjávar. Varðskipið verður til taks á Stöðvarfirði áfram í dag.

Austurfrétt greindi þá frá því í morgun að löndun úr öðrum bát í höfninni hafi staðið yfir þegar tekið var eftir því að Drangur hafi verið farinn að halla heldur mikið. Afturtog hafi þá slitnað og báturinn farið hratt niður á botn. Engin slys urðu á fólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×