Erlent

Pipar­úða beitt á hundruð mót­mælenda í Pól­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Ekki var einungis mótmælt í höfuðborginni Varsjá, heldur héldu einnig fjölmargir mótmælenda út á götur í Krakow, Lodz og Szczecin.
Ekki var einungis mótmælt í höfuðborginni Varsjá, heldur héldu einnig fjölmargir mótmælenda út á götur í Krakow, Lodz og Szczecin. GEtty

Lögregla í Póllandi beitti piparúða á nokkur hundruð mótmælenda sem höfðu safnast saman á götum Varsjár í gærkvöldi til að mótmæla dómi stjórnlagadómstóls landsins sem bannar þungunarrof vegna fósturgalla.

Til átaka kom milli mótmælenda og óeirðalögreglu fyrir utan heimili aðstoðarforsætisráðherrans Jaroslaw Kaczynski í Varsjá. Mótmælendur höfðu gengið í fylkingu að heimili Kaczynski sem er formaður stjórnarflokksins Laga og réttlætis (PiS) og almennt talinn valdamesti maður landsins. Segir lögregla að um fimmtán manns hafi verið handteknir.

Dómur stjórnlagadómstólsins þýðir að þungunarrof verður nú bannað í nær öllum tilfellum í landinu og einungis heimilt í tilfelli nauðgunar, sifjaspells eða þegar líf eða heilsa móður er í hættu.

Löggjöf Póllands þegar kemur að þungunarrofi þykir ein sú strangasta í álfunni og segir í frétt BBC að áætlað sé að um 100 þúsund konur leiti til annarra landa á hverju ári til að gangast undir þungunarrof vegna hinna ströngu reglna.

Ekki var einungis mótmælt í höfuðborginni Varsjá, heldur héldu einnig fjölmargir mótmælenda úr á götur í Krakow, Lodz og Szczecin.

Ríkisstjórn hægriflokksins Laga og réttlætis hefur lengi haft það á stefnuskránni að þrengja enn að rétti kvenna til þungunarrofs. Flestir dómarar við stjórnlagadómstólinn voru skipaðir af flokknum.


Tengdar fréttir

Þungunarrof nær algerlega bannað í Póllandi

Dómur stjórnlagadómstóls Póllands um að þungunarrof vegna fósturgalla stangist á við stjórnarskrá landsins þýðir að þungunarrof verður nú bannað í nær öllum tilfellum í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×