Innlent

Riða í Skaga­firði stað­fest

Atli Ísleifsson skrifar
Úr Skagafirðinum. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Úr Skagafirðinum. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Riða á bænum Stóru-Ökrum 1 í Akrahreppi í Skagafirði hefur verið staðfest.

Frá þessu segir á heimasíðu Matvælastofnunar, en undirbúningur við niðurskurð fjár á bænum stendur nú yfir.

„Matvælastofnun ítrekar að allur flutningur líffjár (sauð- og geitfjár) innan Tröllaskagahólfs er bannaður.

Beðið er eftir niðurstöðum sýna úr sauðfé sem flutt var frá bænum til annarra bæja innan varnarhólfsins,“ segir í tilkynningunni.

Greint var frá því á föstudaginn síðastliðinn að sterkur grunur væru um riðuveiki á bænum og setti Matvælastofnun í kjölfarið bann á allan flutning líffjár, það er sauð- og geitfjár, innan Tröllaskagahólfs til bráðabirgða.

Sagði að bóndinn á bænum hafi haft samband við starfandi dýralækni sem tilkynnti héraðsdýralækni um kind með einkenni riðuveiki. Héraðsdýralæknir skoðaði kindina sem síðan var aflífuð, sýni tekin og send til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum. Hefur riðan nú fengist staðfest.

Búið er í Tröllaskagahólfi og á svæði þar sem ekki hafði greinst riða síðan árið 2000. Á búinu er um 500 fullorðið fé auk um 300 lamba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×