Fótbolti

Stórliðin bæði í bleiku og töpuðu óvænt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lionel Messi umkringdur leikmönnum Getafe í gær.
Lionel Messi umkringdur leikmönnum Getafe í gær. Reuters

Tvö stærstu lið spænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu töpuðu leikjum sínum í gær. Bæði töpuðu 1-0 og bæði léku í bleikum búningum. Hér er um að ræða Spánarmeistara Real Madrid og Barcelona. Var þetta fyrsta tap beggja liða í deildinni.

Real tapaði á heimavelli fyrir nýliðum Cadiz á meðan Barcelona tapaði fyrir hinu varnarsinnaða liði Getafe. Er þetta í fyrsta skipti sem bæði lið tapa í sömu umferð síðan í september árið 2018. Eflaust er þetta í fyrsta skipti sem bæði eru í bleiku og tapa bæði.

Liðin geta ekki dvalið við leiki gærdagsins en þau þurfa að fara undirbúa sig undir leiki í Meistaradeild Evrópu í vikunni. Í kjölfarið er svo El Clasico næstu helgi.

Börsungar áttu erfitt með að skapa sér fær gegn Getafe og margir leikmenn liðsins eflaust enn að jafna sig eftir erfiða landsleikjatörn. Ronald Koeman, þjálfari liðsins, er enn að reyna finna pláss fyrir sínar helstu stjörnur í liðinu. Heimsmeistarinn Antoine Griezmann lék því sem fremsti maður og Argentínumaðurinn Lionel Messi var úti á hægri vængnum.

Eitthvað sem hvorugur þeirra vill. Griezmann vill spila á bakvið öflugan og líkamlega sterkan fremsta mann á meðan Messi vill vera „fremsti maður“ sjálfur, í hlutverki falskrar níu.

Þá var ekki nóg með að Real tapaði sínum leik heldur fór fyrirliði liðsins – Sergio Ramos – meiddur af velli í hálfleik. Óvíst er hvort hann nái leiknum gegn Shakhtar Donetsk í Meistaradeild Evrópu á miðvikudag.

Var þetta fyrsti sigur Cadiz gegn Real Madrid í deildinni. Í síðustu 12 leikjum liðanna á heimavelli Real höfðu meistararnir unnið 11 sinnum á meðan einum leiknum lauk með jafntefli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×