Fótbolti

Albert í hlutverki Gylfa og fékk hrós frá sérfræðingunum: Látið Albert fá boltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson á ferðinni í leiknum á móti Belgíu í gær.
Albert Guðmundsson á ferðinni í leiknum á móti Belgíu í gær. Vísir/Vilhelm

Albert Guðmundsson fékk stórt hlutverk í íslenska landsliðinu í leiknum á móti Belgíu og hann fékk líka mikið hrós eftir leikinn frá þeim Bjarna Guðjónssyni og Davíð Þór Viðarssyni.

Í uppgjöri á leik Íslands og Belgíu á Stöð 2 Sport þá fóru þeir Bjarni og Davíð Þór vel yfir frammistöðu Alberts í leiknum og hvað hann gerði vel.

„Hann var frábær og ég hefði bara viljað fá meira af honum á boltanum. Miðað við það hvernig leikurinn þróaðist þá hefði Albert átt að fá meira af boltanum á síðasta þriðjungum. Skilaboðin í hálfleik áttu að vera látið Albert fá boltann á síðasta þriðjungnum,“ sagði Bjarni Guðjónsson og hélt áfram:

„Hann er klókur og kemur líkamanum á milli boltans og varnarmannsins sem er á móti honum. Hann hélt boltanum vel og hér hleypur hann aftur fyrir vörnina og skynjar plássið sem var var fyrir aftan. Albert leysir ofboðslega vel úr þeim stöðum sem hann fær,“ sagði Bjarni en um leið voru sýndar sóknir þar sem Albert var að gera mjög góða hluti.

„Það er svo gott fyrir okkur að geta fundið mann í fæturna og spilað aðeins boltanum. Hann má vera mjög ánægður með leikinn sinn því hann lagði sig líka fram varnarlega og hljóp og barðist með liðsfélögunum sínum,“ sagði Bjarni.

„Það má að einhverju leyti segja það að hann hafi komið inn í það hlutverk sem Gylfi Sigurðsson er með hjá þessu landsliði. Hann skilar því mjög vel í þessum leik eins og við erum búnir að vera að tala um. Ég kallaði eftir því fyrir leikinn að hann myndi sýna alvöru frammistöðu til að sýna að hann ætti heima þarna. Hann gerði það klárlega,“ sagði Davíð Þór en bætti við:

„Í framhaldinu vildi maður sjá hann verða ennþá hættulegri og að hann gæti oftar komið sér í stöður þar sem hann gæti látið vaða á markið eða búið til eitthvað meira. Út á vellinum var hann bara frábær og sá leikmaður sem heillaði mig mest,“ sagði Davíð Þór Viðarsson um Albert Guðmundsson.

Hér fyrir neðan má sjá sérfræðingana tala um frammistöðu Alberts Guðmundssonar á móti Belgum.

Klippa: Sérfræðingarnir ánægðir með Albert Guðmundsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×