Fótbolti

Lukaku og Batshuayi hafa verið íslenska liðinu afar erfiðir í síðustu leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romelu Lukaku skoraði tvö mörk í síðasta leiknum sínum á Laugardalsvellinum en hér er hann í baráttu við Guðlaug Victor Pálsson í leiknum.
Romelu Lukaku skoraði tvö mörk í síðasta leiknum sínum á Laugardalsvellinum en hér er hann í baráttu við Guðlaug Victor Pálsson í leiknum. Getty/ Philippe Crochet

Framherjar Belga hafa raðað inn mörkum í síðustu landsleikjum á móti Íslandi og þá hefur ekki skipt máli hvort Romelu Lukaku eða Michy Batshuayi hefur byrjað leikinn fyrir Belga.

Nú er spurning hvort það verður Romelu Lukaku eða Michy Batshuayi sem byrjar leikinn á Laugardalsvellinum í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18.45 og verður sýndur beint á bæði Stöð 2 og Stöð 2 Sport.

Michy Batshuayi hefur skorað fjögur mörk í síðustu tveimur leikjum sínum á móti Íslandi og þegar Romelu Lukaku mætti síðast í Laugardalinn þá skoraði hann tvívegis. Romelu Lukaku skoraði líka í 3-1 sigri Belga á Íslendingum í vináttulandsleik í nóvember 2014.

Michy Batshuayi og Romelu Lukaku hafa því skorað samtals sjö mörk í síðustu fjórum landsleikjum Íslands og Belgíu sem Belgar hafa unnið alla og það með markatölunni 13-2.

Batshuayi hefur nýtt sín tækifæri vel með belgíska landsliðinu en hann hefur skorað 19 mörk í 31 landsleik. Romelu Lukaku er samt fyrsti kostur og hann er með 53 mörk í 86 landsleikjunum sínum.

Romelu Lukaku skoraði fyrir Belga í síðasta leik en það dugði ekki því Belgía tapaði þá 2-1 á móti Englandi á Wembley.

Michy Batshuayi skoraði líka í sínum síðasta landsleik sem var vináttulandsleikur á móti Fílabeinsströndinni á fimmtudaginn var. Í leiknum á undan skoraði hann annað og fjórða mark belgíska landsliðsins í 5-1 sigri á Íslandi.

Íslensku varnarmennirnir hafa ekki þurft að hafa áhyggjur af Romelu Lukaku í síðustu tveimur leikjum en frá ágúst 2017 þá hefur hann skorað 30 mörk í aðeins 26 landsleikjum.

Íslenska liðið hefur hins vegar aldrei þurft að eiga við þá báða í einu og það er kannski eins gott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×