Fótbolti

Topplið heimslista FIFA hefur aldrei áður spilað á Laugardalsvellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olivier Giroud tryggir Frökkum 1-0 sigur á Íslandi á Laugardalsvellinum í fyrra.
Olivier Giroud tryggir Frökkum 1-0 sigur á Íslandi á Laugardalsvellinum í fyrra. Getty/Jan Hetfleisch

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur fengið bæði ríkjandi og nýkrýnda heimsmeistara í heimsókn í Laugardalinn en í kvöld taka íslensku strákarnir hins vegar í fyrsta sinn á móti efsta liði heimsmeistara FIFA á Laugardalsvelli.

Frakkar hafa tvisvar komið í Laugardalinn sem ríkjandi heimsmeistarar en í hvorugt skipti þá voru þeir í efsta sæti heimslistans. Belgar fóru síðan á topp heimslistans eftir sigur sinn á Laugardalsvellinum haustið 2018. Hollendingar komu síðan í Laugardalinn sumarið 2009 þegar þeir voru í öðru sæti heimslistans.

Belgar mæta í Laugardalinn í kvöld en þeir hafa verið í efsta sæti heimslistans síðan í septembermánuði 2018.

Íslenska landsliðið hefur mætt efsta landsliði heimslistans áður á útivelli eða alls þrisvar sinnum. Fyrsti leikurinn var á útivelli á móti Brasilíu í aðdraganda heimsmeistaramótsins 1994 en Ronaldo skoraði þá í sínum fyrsta landsleik í 3-0 sigri Brassa.

Íslensku strákarnir hafa líka tvisvar mætt Belgum á útivelli síðan belgíska liðið komst í efsta sæti heimslistans.

Frakkar spiluðu sinn fyrsta mótsleik eftir heimsmeistaratitilinn 1998 þegar þeir spiluðu við íslenska landsliðið í byrjun september 1998 eða aðeins tæpum tveimur mánuðum eftir 3-0 sigur sinn á Brasilíu í úrslitaleik HM.

Ríkharður Daðason kom íslenska liðinu í 1-0 með skalla eftir skógarhlaup markvarðarins litríka Fabien Barthez en Frakkar náðu að jafna og tryggja sér eitt stig. Frakkar voru þarna enn í öðru sæti heimslistans á eftir Brasilíumönnum þrátt fyrir heimsmeistaratitilinn. Þeir komust ekki í efsta sætið fyrr en að þeir voru líka búnir að bæta Evrópumeistaratitlinum við sumarið 2000.

Frakkar voru líka ríkjandi heimsmeistarar þegar þeir mættu á Laugardalsvöllinn 11. október í fyrra. Frakkar unnu þá nauman 1-0 sigur. Frakkar höfðu þá þegar misst efsta sæti heimslistans til Belga sem höfðu verið í öðru sæti heimslistans þegar þær mættu til Íslands mánuði fyrr.

Svíar voru líka nálægt toppi heimslistans þegar þeir mættu á Laugardalsvöllinni haustið 1994 þá nýbúnir að vinna brons á HM í Bandaríkjunum. Sænska liðið var þá í þriðja sæti heimslistans og vann þá 1-0 sigur á íslenska liðinu með marki Klas Ingesson.

Leikur Íslands og Belgíu hefst klukkan 18.45 í kvöld og verður í beinni útsendingu á bæði Stöð 2 og Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst á Stöð 2 Sport klukkan 17.45.

Leikir Íslands á móti toppliðinu á heimslista FIFA

  • 3-0 tap á móti Brasilíu í Florianópolis 4. maí 1994
  • 2-0 tap á móti Belgíu í Brussels 15. nóvember 2018
  • 2-2 jafntefli á móti Frakklandi í Guingamp 11. október 2018 (æfingaleikur)
  • 5-1 tap á móti Belgíu í Brussel 8. september 2020

Leikir Íslands á móti liðinu í öðru sæti á heimslista FIFA

  • 1-0 tap á móti Frakklandi á Laugardalsvellinum 11. október 2019
  • 4-0 tap á móti Frakklandi í Saint-Denis 25. mars 2019
  • 3-0 tap á móti Belgíu á Laugardalsvellinum 11. september 2018
  • 2-1 tap á móti Hollandi á Laugardalsvellinum 6. júní 2009
  • 1-1 jafntefli á móti Frakklandi á Laugardalsvellinum 5. september 1998



Fleiri fréttir

Sjá meira


×