Fótbolti

Hamrén og allt starfslið landsliðsins í sóttkví

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik Hamrén er kominn í sóttkví.
Erik Hamrén er kominn í sóttkví. vísir/vilhelm

Allt starfslið íslenska karlalandsliðsins í fótbolta er komið í sóttkví vegna kórónuveirusmits starfsmanns KSÍ.

Í frétt á heimasíðu KSÍ kemur fram að smitrakningateymi Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra hafi tilkynnt að starfslið landsliðsins þyrfti að fara í sóttkví.

Leikmenn landsliðsins þurfa ekki að fara í sóttkví og ekkert bendir til þess að leikurinn gegn Belgíu í Þjóðadeildinni annað kvöld geti ekki farið fram.

Ljóst er að Erik Hamrén stýrir íslenska liðinu ekki gegn Belgum. Óvíst er hver verður á hliðarlínunni í stað hans og Freys Alexanderssonar, aðstoðarþjálfara landsliðsins.

Auk þeirra Hamréns og Freys er markvarðaþjálfarinn Lars Eriksson, læknar, sjúkraþjálfarar og liðsstjórar íslenska liðsins komnir í sóttkví.

Gegn Dönum voru eftirfarandi einstaklingar á skýrslu íslenska liðsins: Erik Hamrén (þjálfari), Freyr Alexandersson (aðstoðarþjálfari), Lars Eriksson (markvarðaþjálfari), Tom Joel (þrekþjálfari), Bjarni Þórður Halldórsson (liðsstjóri), Stefán Hafþór Stefánsson (sjúkraþjálfari), Rúnar Pálmarsson (sjúkraþjálfari), Pétur Örn Gunnarsson (sjúkraþjálfari), Haukur Björnsson (læknir), Friðrik Ellert Jónsson (sjúkraþjálfari) og Sigurður Sveinn Þórðarson (umsjónarmaður).

Í morgun kom upp grunur um kórónuveirusmit í umhverfi landsliðsins en greint var frá því á Fótbolta.net. Fyrir æfingu liðsins á Laugardalsvelli var borð með drykkjum leikmanna tæmt, öllum drykkjum hellt niður og allur búnaður sótthreinsaður í bak og fyrir. Í kjölfarið fór æfingin fram.

Allur búnaður var sótthreinsaður fyrir æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvelli í morgun.vísir/vilhelm

Ísland er án stiga á botni riðils 2 í A-deild Þjóðadeildarinnar. Sjö leikmenn eru dottnir út úr íslenska hópnum og það verður því nokkuð breytt lið sem mætir til leiks gegn Belgum sem eru í efsta sæti styrkleikalista FIFA.

Leikur Íslands og Belgíu hefst klukkan 18:45 á morgun og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsending hefst klukkan 17:45.


Tengdar fréttir

Grunur um smit í umhverfi landsliðsins

Búið er að færa allar sóttvarnir í tengslum við leik Íslands og Belgíu upp um eitt stig vegna gruns um smit í umhverfi íslenska liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×