Formúla 1

Schumacher yngri heiðraði Hamilton | Myndband

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hamilton með hjálminn sem Mick Schumacher gaf honum til heiðurs þess að hafa jafnað met föður síns.
Hamilton með hjálminn sem Mick Schumacher gaf honum til heiðurs þess að hafa jafnað met föður síns. Bryn Lennon/Getty Images

Lewis Hamilton, ökumaður Mercedes í Formúlu 1 kappakstrinum, jafnaði í dag met goðsagnarinnar Michael Schumacher er hann vann sinn 91. kappakstur í Formúlu 1.

Í tilefni þess heiðraði Mick Schumacher, sonur Michael, Hamilton og gaf honum Formúlu 1 hjálm sem föður hans notaði er hann keyrði fyrir Mercedes. Þar lauk Michael ferli sínum en hann gerði garðinn frægan með Ferrari og var óumdeilanlega besti ökumaður heims á þeim tíma.

„Til hamingju, þetta er magnað afrek og þetta er frá okkur öllum,“ sagði Schumacher yngri er hann rétti Hamilton hjálminn. Schumacher var að taka þátt í sinni fyrstu Formúlu 1 helgi en hann er sem stendur efstur á stigalista Formúlu 2. Talið er að hann muni feta í fótspor föður síns og keppa í Formúlu 1 strax á næsta keppnistímabili.

„Þetta er mér mikill heiður. ég kann mikið að meta þetta og takk fyrir kærlega,“ sagði Hamilton.

„Ég veit í rauninni ekki hvað skal segja. Þegar þú elst upp við að fylgjast með einhverjum sem þú gjörsamlega dýrkar. Bæði vegna þess hversu góðir ökumenn þeir eru og hversu lengi þeir geta haldið því áfram með liði sínu. Ég held að enginn, og sérstaklega ekki ég, hefði reiknað með því að ég myndi vera nálægt metunum hans Michael svo þetta er mikill heiður og það mun takast tíma að venjast þessu,“ sagði hrærður Hamilton við blaðamenn í kjölfarið og hélt áfram.

„Það var ekki fyrr en ég kom í mark sem ég áttaði mig á að ég hefði jafnað metið. Ef það væri ekki fyrir þetta frábæra lið sem stendur við bakið á mér og ýtir mér áfram þá hefði ég aldrei náð þessu,“ sagði Hamilton að lokum.

Hamilton gæti einnig jafnað met Schumachers yfir fjölda heimsmeistaratitla að lokinni leiktíðinni. Hann stefnir hraðbyr að sínum sjöunda sem eru jafn margir og Schumacher vann á ferli sínum í Formúlu 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×