Fótbolti

Svíþjóð upp fyrir Ísland á markatölu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik Íslands og Svíþjóðar í síðasta mánuði.
Úr leik Íslands og Svíþjóðar í síðasta mánuði. Vísir/Daniel Thor

Sænska U21 árs landsliðið nýtti sér það að leikur Íslands og Ítalíu fór ekki fram í dag. Þeir unnu öruggan sigur á Lúxemborg og komust upp fyrir Ísland í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu.

Líkt og kom fram fyrr í dag þurfti að fresta leik Íslands og Ítalíu í undankeppni EM sem fram átti að fara á Víkingsvelli þar sem þrír leikmenn ítalska liðsins greindust með kórónuveiruna við komuna hingað til lands.

Þar áður höfðu tveir greinst þegar hópurinn kom saman á Ítalíu. Liðið er sem stendur í sóttkví hér á landi. Leikur Íslands og Ítalíu fór því ekki fram og óvíst er hvenær hann verður spilaður.

Ísland er í harðri baráttu við Ítalíu, Írland og Svíþjóð um toppsæti riðilsins. Íslenska liðið gerði sér lítið fyrir og lagði það sænska af velli í síðasta mánuði. Lokatölur 1-0 og hefði Ísland leikið þann leik eftir gegn Ítölum í dag hefðu þeir aðeins verið stigi á eftir Írum sem tróna á toppi riðilsins.

Sænska liðið mætti hins vegar slöku liði Lúxemborgar í dag og vann öruggan 4-0 sigur. Jesper Karlsson kom Svíum yfir á 22. mínútu og áður en fyrri hálfleik var lokið hafði Jesper skorað annað mark sem og Max Svensson. Staðan því 3-0 í hálfleik og Felix Beijmo tryggði sigurinn svo í þeim síðari.

Svíar eru þar með komnir upp fyrir íslenska liðið á markatölu en bæði lið eru með 12 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×