Innlent

Óttast aðra hrinu heimilisofbeldismála og hvetur fólk til að vera á varðbergi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri Bjarkarhlíðar, segir að vegna meira álags á heimilinum geti orðið stigmögnun í ofbeldissamböndum. 
Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri Bjarkarhlíðar, segir að vegna meira álags á heimilinum geti orðið stigmögnun í ofbeldissamböndum. 

Teymisstjóri Bjarkarhlíðar óttast að nú fari aftur af stað hrina heimilisofbeldismála í tengslum við þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins. Hún hvetur almenning til að vera á varðbergi.

Rannsóknir hafa sýnt að heimilisofbeldi eykst á tímum heimsfaraldurs og á það við hér á landi eins og fram hefur komið í afbrotatölfræði Ríkislögreglustjóra.

Yfir 700 manns hafa leitað til Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, í ár og hafa aldrei verið fleiri. Teymisstjóri óttast að nú fari aftur af stað hrina heimilisofbeldismála.

„Ég er ansi hrædd það og það sem við höfum til að byggja á sýnir það og við verðum bara að vera undirbúin,“ segir Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri Bjarkarhlíðar.

Í byrjun fyrstu bylgju faraldursins hafi verið lítið að gera hjá Bjarkarhlíð en svo hafi orðið sprenging í maí. Ragna segir merki um að það sama sé að gerast núna.

„Við erum að sjá fólk svolítið bakka, fara bara inn. Þetta eykur á einangrun þeirra sem eru kannski nú þegar í einangrun og hafa geta notað vinnuna og vini til að rjúfa hana. Við sjáum þetta sem vopn í höndum þeirra sem beita ofbeldi því einangrun er einn partur af andlegu ofbeldi,“ segir Ragna. 

Vegna faraldursins bíður Bjarkarhlíð einungis upp á símaviðtöl en fólk í ofbeldissambandi á stundum erfitt með að ræða málin í síma.

„Við fáum stundum svör um að það séu allir heima, það eru allir að vinna heima núna og þá vitum við það er ekki góður tími,“ segir Ragna. 

Vegna meira álags á heimilum geti orðið stigmögnun í ofbeldissamböndum.

„Það getur orðið oftar. Kannski var ein sprengja á mánuði en nú er það kannski á hverjum degi, og kannski alvarlegra,“ segir Ragna. 

Heimilisofbeldi sé ekki einkamál fólks og mikilvægt að almenningur sé á varðbergi þessa dagana. „Þannig ef fólk er vitni af eða heyrir átök. Ég veit það er erfitt að tilkynna en það skiptir bara öllu máli að láta vita,“ segir Ragna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×