Innlent

„Fólki er misboðið“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Reinhold Richter trúnaðarmaður starfsmanna hjá Álverinu í Straumsvík
Reinhold Richter trúnaðarmaður starfsmanna hjá Álverinu í Straumsvík Vísir/Sigurjón

Ríflega átta af hverjum tíu starfsmönnum álversins í Straumsvík greiddu atkvæði með verkfallsaðgerðum. Trúnaðarmaður segir að starfsfólki sé misboðið.

Félagsmenn í fimm stéttarfélögum hjá álverinu í Straumsvík samþykktu verkfallsboðun en félagsmenn VR felldu það naumlega.

„Fólk er orðið svo langþreytt og þetta er í raun merkilegt í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu að svona margir skuli greiða þessu atkvæði með þessum hætti. Það hefur líka verið alveg gegndarlaus áróður hjá fyrirtækinu og rangar upplýsingar inná Workplace um gang samninga og annað. Starfsfólki er misboðið með hvernig er búið að koma fram við það og hvernig því er beitt í refsskák um raforkuverð við ríkið og Landsvirkjun,“ segir Reinhold.

Í tilkynningu frá Isal í dag vegna málsins kemur fram að fyrirtækið hafi þegar boðið stéttarfélögum hækkun upp á 24.000 krónur á regluleg laun í samræmi við Lífskjarasamninginn sem þau hafi hafnað. Niðurstaða atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun séu mikil vonbrigði. Reinhold segir að áður en til verkfalls komi verði reynt að semja. 

„Næstu skerf hljóta að vera að setjast að samningaborðinu og semja. Það er okkar markmið,“ segir Reinhold.

Hann segir að kjaradeilan snúist um að starfsfólk fái sömu greiðslur og komi fram í lífskjarasamningnum eða 73 þúsund krónur. Ef ekki takist að semja fari fyrstu verkfallsaðgerðir í gang þann 16. október þegar einstaka starfstéttir leggja niður störf og svo daglega út nóvember. Ef ekki takist að semja fyrir þann tíma verði boðað til allsherjarverkfalls í álverinu í Straumsvík þann 1. desember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×