Innlent

Loka pósthúsinu við Síðumúla eftir smit

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Pósthúsið við Síðumúla er lokað í dag.
Pósthúsið við Síðumúla er lokað í dag. Mynd/já.is

Pósthúsið í Síðumúla verður lokað í dag vegna Covid-19 smits sem kom upp hjá starfsmanni. Aðrir starfsmenn hafa verið sendir í sóttkví og verða prófaðir í dag. Þá verður Pósthúsið sótthreinsað í dag og gert er ráð fyrir að það opni aftur í fyrramálið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum þar sem haft er eftir Herði Jónssyni, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Póstsins að því miður sé fyrirtækið að„ lenda í þessu á okkar umfangsmesta pósthúsi.“

„Við verðum að setja öryggið framar öllu og því verður allt sótthreinsað í húsinu í dag til að koma í veg fyrir fleiri smit. Hvað varðar smitvarnir þá eiga allir starfsmenn pósthúsa að vera með grímur og við leggjum mikla áherslu á að allir fylgi persónulegum smitvörnum. Spritt og hanskar eru í afgreiðslum fyrir viðskiptavini sem og starfsmenn og þá er lögð áhersla á að afgreiðslur séu snertilausar,“ er haft eftir Herði.

Hertar reglur um samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins tóku gildi á höfuðborgarsvæðinu í dag. Reglurnar eru töluvert hertar frá þeim reglum sem tóku gildi á miðnætti aðfaranótt mánudags og er ekki að finna í þeim eins margar undanþágur og veittar eru almennt frá tuttugu manna samkomubanninu sem er í gildi um land allt.

Alls greindust 99 mans með kórónuveiruna í fyrradag, beðið er eftir tölum fyrir gærdaginn. 747 eru í einangrun og 3.571 er í sóttkví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×