Innlent

Fullyrt að metfjöldi smita hafi greinst innanlands í gær

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mesti fjöldi sem greinst hefur í þessari bylgju er 75 manns.
Mesti fjöldi sem greinst hefur í þessari bylgju er 75 manns. Vísir/Vilhelm

Uppfært: 99 greindust með kórónuveiruna sem veldur Covid-19 sjúkdómnum í gær. Nánar hér.

Metfjöldi smita í þessari bylgju kórónuveirufaraldursins greindist innanlands í gær. Þetta er fullyrt í frétt á vef RÚV og haft eftir heimildum.

Heimildir Vísis herma svo einnig en mesti fjöldi sem greinst hefur á einum degi í þessari bylgju er 75. Það var 18. september en talsvert fleiri smit en það greindust í gær.

Samkvæmt upplýsingum Vísis er nú verið að funda um stöðuna en tölurnar verða ekki birtar fyrr en klukkan 11 eins og venja er. Haldinn var upplýsingafundur í gær og ætti næsti fundur að vera á fimmtudag.

Að því er segir í frétt RÚV hafa ekki greinst jafnmörg smit hér á landi og greindust í gær síðan í vor, þegar faraldurinn stóð sem hæst. Flest smit sem greinst hafa á einum degi eru 106 sem var þann 24. mars.

59 greindust með kórónuveiruna í fyrradag og eru nú hátt í 800 manns í einangrun á Íslandi vegna Covid-19, samkvæmt tölfræðiupplýsingum á covid.is.

Þá liggja fimmtán á Landspítalanum vegna Covid-19, samkvæmt nýjustu upplýsingum um innlagnir. Þar af eru þrír á gjörgæslu og eru þeir allir í öndunarvél.

Fréttin var uppfærð klukkan 09:03.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×