Fótbolti

Rúnar Már skoraði og er næstmarkahæstur í Kasakstan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Már Sigurjónsson í leik gegn Manchester United í Evrópudeildinni á síðasta tímabili.
Rúnar Már Sigurjónsson í leik gegn Manchester United í Evrópudeildinni á síðasta tímabili. getty/Ash Donelon

Rúnar Már Sigurjónsson skoraði mark Astana þegar liðið tapaði 1-2 fyrir Kaspij Aktau í úrvalsdeildinni í Kasakstan í dag.

Skagfirðingurinn hefur skorað sex mörk á tímabilinu og er næstmarkahæstur í deildinni á eftir Brasilíumanninum Joao Paulo hjá Ordabasy.

Rúnar Már kom Astana í 1-0 á 37. mínútu. Þannig var staðan í hálfleik og allt fram á 72. mínútu þegar Kaspij Aktau jafnaði. Sigurmark gestanna kom svo þremur mínútum síðar.

Þetta var annað tap Astana í deildinni á tímabilinu. Liðið er í 2. sæti með 21 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Almaty sem á auk þess leik til góða á Astana.

Rúnar missti af síðustu leikjum íslenska landsliðsins vegna meiðsla en verður væntanlega í landsliðshópnum sem mætir Rúmeníu, Danmörku og Belgíu í þessum mánuði. Hópurinn verður tilkynntur á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×