Fótbolti

Getafe og Valencia óvænt í efstu tveimur sætunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Angel Rodriguez fagnar síðara marki sínu í kvöld.
Angel Rodriguez fagnar síðara marki sínu í kvöld. Alejandro Rios/Getty Images

Tveir leikir fóru fram í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Valencia og Getafe unnu bæði nokkuð óvænt sigra en þeim var ekki spáð sérstöku gengi fyrir tímabilið.

Valencia sótti Real Sociedad heim í kvöld og var búist við öruggum sigri heimamanna. Valencia hefur þurft að selja nær alla sína lykilmenn og var spáð skelfilegu gengi á leiktíðinni. Leikmenn liðsins hafa hins vegar snúið bökum saman og ætla sér að blása á spár spekinga.

Maximiliano Gomez skoraði eina mark leiksins þegar fimmtán mínútur voru eftir og reyndist það sigurmark leiksins. Lokatölur 1-0 Valencia í vil en liðið barðist með kjafti og klóm í kvöld og uppskar fimm gul spjöld.

Getafe vann öruggan 3-0 sigur á Real Betis en bæði lið höfðu verið vel af stað á leiktíðinni. Angel Rodriguez skoraði tvívegis fyrir heimamenn og Marc Cucurella var einnig á skotskónum. Aissa Mandi nældi sér í tvö gul spjöld í liði Betis og voru gestirnir því manni færri síðustu sjö mínútur leiksins.

Alls fóru átta gul spjöld á loft í leiknum.

Getafe ser sem stendur á toppi deildarinnar en liðið er með sjö stig eftir þrjá leiki. Valencia er einnig með sjö stig en liðið hefur leikið einum leik meira en Getafe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×