Íslenski boltinn

Toppslagur Fram og Keflavíkur í beinni í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Íshólm Ólafsson og félagar í Fram verða í eldlínunni í Keflavík í dag.
Ólafur Íshólm Ólafsson og félagar í Fram verða í eldlínunni í Keflavík í dag. Vísir/Hag

Keflavík tekur á móti Fram í Lengjudeild karla í fótbolta í kvöld en þarna mætast tvö efstu lið deildarinnar.

Leikurinn átti að fara fram í gær en var frestað vegna veðurs. Leikurinn fer nú fram klukkan 16.30 í dag og verður hann sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Keflavík nær toppsætinu af Fram með sigri en Fram er með tveggja stiga forskot á toppnum. Keflavík á hins vegar leik inni.

Framarar hafa bara tapað einum deildarleik í sumar og það tap kom á móti Leikni Reykjavík 11. júlí eða fyrir meira en tveimur mánuðum.

Síðasta tap Keflavíkurliðsins kom líka á móti Leikni en það var 28. ágúst. Leiknismenn eru einu stigi á eftir Keflavík og þremur stigum á eftir toppliði Fram.

Breiðhyltingar eru því heldur með í baráttunni um sæti í Pepsi Max deildinni á næsta ári en Leiknisliðið hefur unnið báða leiki sína á móti Keflavík og er með níu stig í húsi af tólf mögulegum á móti efstu tveimur liðunum.

Gömlu stórveldin eru hins vegar öll að braggast eftir mögur og litlaus ár. Keflavík og Fram eru bæði í hópi þeirra sjö félaga sem hafa oftast orðið Íslandsmeistarar karla í fótbolta en þau hafa ekki verið í efstu deild undanfarin tímabil.

Fram féll úr úrvalsdeildinni árið 2014 og Keflavík hefur aðeins verið eitt tímabil í efstu deild á síðustu fimm árum. Nú gera þau sig aftur á móti bæði líkleg til að endurheimta sætið meðal þeirra bestu.

Fram hefur átján sinnum orðið Íslandsmeistari, síðast árið 1990 en Keflavík hefur unnið fjóra Íslandsmeistaratitla en engan þó síðan árið 1973.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×