Fótbolti

Mikael á bekknum er Mid­tjylland komst á­fram | Amanda skoraði

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikael Anderson í leik með Midtjylland á síðustu leiktíð.
Mikael Anderson í leik með Midtjylland á síðustu leiktíð. VÍSIR/GETTY

Mikael Anderson kom ekki við sögu er FC Midtjylland tryggði sér sæti í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Amanda Andradóttir var á skotskónum í dönsku bikarkeppninni og Andri Rúnar hóf leik á varamannabekk Esjberg í kvöld.

Mikael sat sem fastast á varamannabekk Midtjylland er liðið vann öruggan 3-0 sigur á Young Boys frá Sviss á heimavelli sínum í kvöld. Íslenski vængmaðurinn hefur verið orðaður við AGF undanfarið og gæti verið að það fari svo að hann verði samherji Jóns Dags Þorsteinssonar áður en langt um líður.

Dönsku meistararnir eru með sigrinum komnir í umspil um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Þar mætir liðið Slavia Prag frá Tékklandi og fara leikirnir fram 22. og 30. september.

Mikael er ekki eini Íslendingurinn í umspilinu en Sverrir Ingi Ingason er þar einnig með liði sínu PAOK frá Grikklandi.

Hin 16 ára Amanda Andradóttir heldur áfram að gera það gott með Nordsjælland í Danmörku. Hún var á skotskónum er liðið vann 5-1 sigur á Damsö í 32-liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar í kvöld. Hennar annað mark fyrir félagið.

Þá lék Andri Rúnar Bjarnason síðustu 25 mínúturnar er Esjberg lagði HB Køge í dönsku B-deildinni í kvöld. Lokatölur 1-0 Esjberg í vil og lærisveinar Ólafs Helga Kristjánssonar nú unnið báða deildarleiki sína á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×