Erlent

Lögmaður Nelsons Mandela látinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bizos og Mandela árið 2008.
Bizos og Mandela árið 2008. Denis Farrell/AP

George Bizos, sem var meðal annars lögfræðingur Nelsons Mandela og annarra baráttumanna fyrir kynþáttajafnrétti í Suður-Afríku á sjöunda áratugnum, er látinn. Hann var 92 ára gamall.

Fjölskylda Bizos segir þá að hann hafi farið í friði á heimili sínu. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins en þar er haft eftir Cyril Ramaphosa, forseta Suður-Afríku, að Bizos hafi lagt mikið af mörkum í uppbyggingu lýðræðis í landinu.

Bizos var fæddur í Grikklandi árið 1927. Þegar hann var 13 ára flúði hann með fjölskyldu sinni til Suður-Afríku vegna seinni hemsstyrjaldarinnar. Hann settist að í Jóhannesarborg þar sem hann lærði síðar lögfræði.

Bizos er hvað þekktastur fyrir að hafa unnið með Nelson Mandela, sem var forseti Suður-Afríku á árunum 1994 til 1999. Mandela var fyrsti svarti leiðtogi Suður-Afríku og sá fyrsti til að vera kjörinn lýðræðislega.

Árið 1956 var Mandela ákærður fyrir landráð en þá hafði hann staðið í baráttu fyrir auknum réttindum svartra í Suður-Afríku og afnámi aðskilnaðarstefnunnar sem var þar við lýði. Bizos varði hann í þeim réttarhöldum, sem lauk með sýknu.

Mandela var aftur ákærður árið 1964, þá fyrir að hafa ætlað að steypa af stóli þáverandi stjórnvöldum landsins. Bizos varði hann einnig í þeim réttarhöldum en svo fór að Mandela var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Hann var þó látinn laus árið 1990. Eins og áður sagði varð hann forseti árið 1995.

„Vinskapur hans [Bizos] og Mandela náði yfir meira en sjö áratugi og var sögulegur,“ segir í yfirlýsingu frá minningarsjóði Nelson Mandela vegna dauða Bizos.

Eftir afnám aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku tók Bizos stóran þátt í gerð nýrrar stjórnarskrár landsins og tók að sé mál fyrir fjölskyldur fólks sem var drepið á tímum aðskilnaðarstefnunnar.

Í einu af síðustu málunum sem Bizos tók að sér vann hann bætur fyrir fjölskyldur 34 námuverkamanna sem voru drepnir af suðurafrísku lögreglunni árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×