Fótbolti

Sjáðu magnað tímamótamark Ronaldos

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar tímamótamarki sínu gegn Svíþjóð í kvöld.
Cristiano Ronaldo fagnar tímamótamarki sínu gegn Svíþjóð í kvöld. VÍSIR/GETTY

Cristiano Ronaldo varð í kvöld fyrsti Evrópubúinn til að ná að skora 100 landsliðsmörk í fótbolta karla. Hann nálgast heimsmet Íranans Ali Daei.

Ronaldo skoraði hundraðasta markið með stæl gegn Svíþjóð í kvöld, beint úr aukaspyrnu rétt fyrir hálfleik. Hann bætti um betur og skoraði annað fallegt mark í seinni hálfleik, í 2-0 sigri. Mörkin hans má sjá hér að neðan.

Klippa: Mörk Ronaldos gegn Svíum

Daei á enn metið yfir flest landsliðsmörk en hann skoraði 109 landsliðsmörk fyrir Íran á sínum ferli. Ronaldo þarf því átta mörk til að jafna hann.

Ronaldo missti af 4-1 sigri Portúgals gegn Króatíu síðasta laugardag en var klár í slaginn í kvöld og lék sinn 165. landsleik.

Af mörkunum 101 hafa aðeins 17 komið í vináttulandsleikjum, hjá Ronaldo. Ronaldo hefur skorað flest mörk gegn Litháen og nú Svíþjóð eða sjö gegn hvorri þjóð.

Indverjinn Sunil Chhetri (72 mörk) og Lionel Messi (70) koma næstir á eftir Ronaldo af þeim sem enn eru að spila í dag.

Í knattspyrnu kvenna hafa 17 leikmenn skorað 100 mörk eða meira fyrir landslið. Christine Sinclair á heimsmetið eða 186 mörk, tveimur meira en hin bandaríska Abby Wambach skoraði á sínum ferli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×