Innlent

Ríkis­út­varpið braut ekki lög með ráðningu Stefáns

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Kristín Þorsteinsdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir sóttu báðar um starf útvarpsstjóra.
Kristín Þorsteinsdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir sóttu báðar um starf útvarpsstjóra. Samsett

Ríkisútvarpið braut ekki jafnréttislög þegar Stefán Eiríksson var ráðinn í starf útvarpsstjóra í janúar síðastliðnum. Þetta er niðurstaða kærunefndar jafnréttismála. 

Þær Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi ráðherra, og Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi ritstjóri 365 Miðla kærðu báðar ákvörðunina og töldu að ráðning Stefáns bryti í bága við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og einnig við lög um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Að mati nefndarinnar skiptir máli í samhenginu að RÚV er opinbert hlutafélag sem lýtur reglum hins almenna vinnumarkaðar og nýtur því aukins svigrúms í þessum málum samanborið við aðrar opinberar stofnanir sem ekki eru hlutafélög. 

Þar fyrir utan komst nefndin einnig að þeirri niðurstöðu að hvorki Kristín né Kolbrún hafi náð að leiða að því líkum að þeim hafi verið mismunað við ráðningu í starf útvarpsstjóra. Þó setti nefndin fram ákveðnar aðfinnslur í tilviki þeirra beggja við mat RÚV á menntun þeirra og einnig við mat RÚV á Kristínu í matsflokknum „Fjölmiðlar, menningar og samfélagsmál.“

Alls sótti 41 umsækjandi um starf útvarpsstjóra. Nítján komust í starfsviðtal og fjórir undirgengust persónuleikapróf og var Kolbrún á meðal þeirra. Stefán Eiríksson þáverandi borgarritari var að endingu ráðinn útvarpsstjóri í janúar.


Tengdar fréttir

Kolbrún skoðar að kæra ráðningu Stefáns

Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra og leikhússtjóri, hefur til skoðunar að kæra ráðningu Stefáns Eiríkssonar í starf útvarpsstjóra til kærunefndar jafnréttismála.

Kristín fær ekki rökstuðning frá RÚV

Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi útgefandi og ritstjóri Fréttablaðsins, hefur fengið neitun frá Ríkisútvarpinu við beiðni sinni um rökstuðning á ráðningu nýs útvarpsstjóra, Stefáns Eiríkssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×