Fótbolti

Hörður Björgvin: Ánægður hvernig við spiluðum allir sem heild

Ísak Hallmundarson skrifar
Hörður í leiknum í dag.
Hörður í leiknum í dag. vísir/hulda

Ísland tapaði með svekkjandi hætti fyrir Englandi í Þjóðadeild UEFA í dag. Lokatölur 0-1 þar sem England skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Birkir Bjarnason klúðraði síðan víti fyrir Ísland á lokamínútu uppbótartímans.

,,Þetta var mjög dramatískur leikur og mjög skemmtilegur fyrir fólkið heima í stofu og áhorfendur sem voru á bakvið markið. Við finnum fyrir stuðning. Við gerðum rosa vel og ég er stoltur af liðinu sem byrjaði og leikmönnum sem komu inná,‘‘ sagði Hörður Björgvin Magnússon, sem lék allan leikinn í vinstri bakvarðarstöðunni fyrir Ísland.

Ísland virtist vera að halda markalaust jafntefli út þegar Englendingar fengu vítaspyrnu eftir að boltinn fór í hönd Sverris Inga Sverrissonar á 90. mínútu.

,,Ég sá ekki hvort þetta fór í hendina á Sverri eða ekki en við fáum dæmt á okkur víti og þeir skoruðu. Auðvitað fengum við víti í lokin og klúðruðum þannig þetta var bara ,,50/50‘‘. Við göngum stoltir en svekktir frá leiknum.‘‘

Aðspurður segist Hörður Björgvin klárlega sáttur við spilamennsku Íslendinga í daga.

,,Þetta var auðvitað mjög skemmtilegur leikur en mjög skrýtinn, þ.e.a.s. engir áhorfendur eða neitt. Erfitt að lýsa tilfinningum þegar við töpum svona naumlega á móti Englandi. Við lögðum upp með að vera mjög þéttir varnarlega og beita skyndisóknum. Auðvitað eru heimsklassa leikmenn í öllum stöðum hjá þeim þannig við gerðum vel varnarlega og ég er ánægður hvernig við spiluðum allir sem heild, bara leiðinlegt að fá mark á sig úr víti,‘‘ sagði Hörður að lokum.

Klippa: Viðtal við Hörð Björgvin



Fleiri fréttir

Sjá meira


×