Fótbolti

Heimir harmar að Aron Einar komist ekki í leikinn gegn Eng­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heimir Hallgrímsson með Aroni Einari Gunnarssyni.
Heimir Hallgrímsson með Aroni Einari Gunnarssyni. Vísir/Andri Marinó

Heimir Hallgrímsson, fyrrum þjálfari íslenska A-landsliðsins í fótbolta, og núverandi þjálfari Al Arabi í Katar harmar það að landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson geti ekki spilað gegn Englandi á morgun.

Heimir var í ítarlegu viðtali á RÚV og fór yfir víðan völl. Meðal annars orðróma þess efnis að Luis Suarez væri á leið til Al Arabi. Suarez virðist nú á leið til Ítalíumeistara Juventus eftir að hafa verið leikmaður Barcelona undanfarin ár.

Heimir og Aron Einar voru í eldlínunni í kvöld er nýtt tímabil í Stjörnudeildinni í Katar fór af stað. Grátlegt jafntefli niðurstaðan í fyrsta leik tímabilsins en liðið stefnir á að gera betur en á síðustu leiktíð þegar það endaði í 7. sæti.

Aron Einar í eldlínunni með Al Arabi.Vísir/Al Arabi

Var tilbúinn að hleypa Aroni Einari í landsleikina

Ísland mætir Englandi á Laugardalsvelli á morgun í Þjóðadeildinni. Á þriðjudaginn mætir íslenska liðið svo Belgíu ytra. Var Heimir búinn að gefa landsliðsfyrirliðanum Aroni Einari Gunnarssyni leyfi til að mæta í báða leikina.

Al Arabi ákvað hins vegar að Aron Einar mætti ekki koma til Íslands.

„Það var svolítið skrítin staða sem kom upp hjá okkur. Við vorum fyrir löngu síðan búnir að ákveða að hann færi í þessa landsleiki. Ég var búinn að fá samþykki fyrir því hjá stjórninni að hann færi í þessa landsleiki. Við vorum búnir að fá frestun á tveimur fyrstu umferðunum hjá okkur gegn því að spila á meðan Meistaradeildin færi fram. Þetta hefðu verið leikirnir í 1. og 2. umferð sem hefði verið frestað og Aron hefði þá bara misst af einum leik, leiknum í 3. umferð meðan hann hefði verið í sóttkví. Við vorum tilbúnir til að fórna því og allt í góðu og allt samþykkt,“ sagði Heimir í viðtalinu á RÚV.

Vill að Aron Einar spili leiki sem þessa

„Ég skil alla aðila en mér finnst þetta samt leiðinlegt. Ég þekki Aron Einar vel og vil alls ekki stoppa hann í að fara í landsleiki. Það er líka annað í þessu sem mér finnst mikilvægt og það er að hann spili leiki eins og þessa, í háum gæðum með mikið tempó. Það er mikilvægt fyrir Aron og það er mikilvægt fyrir okkur að hafa leikmann sem getur spilað í þessum gæðum,“ sagði Heimir einnig í viðtalinu.

Um Luis Suarez-málið

„Ég veit ekki hver byrjaði á þessu, en þetta flaug um heiminn. Þetta var bara ágætis brandari fyrir okkur. Ég held að Luis Suárez sé aðeins of góður til að spila fyrir Al Arabi á þessari stundu. En vonandi einhvern tímann. Það voru einhverjar fyrirspurnir sem fóru héðan. En ég veit ekki hversu langt það fór.“

Nú er eins og áður sagði nær öruggt að Suarez gangi til liðs við Ítalíumeistara Juventus á næstu dögum.

Við minnum á leik Íslands og Englands á Laugardalsvelli á morgun. Leikurinn hefst klukkan 16:00 en klukkutíma fyrr hefst upphitun. Allt í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.

Sýnt verður beint frá öllum leikjum Íslands í Þjóðadeildinni á Stöð 2 Sport. Riðlakeppnin hefst 5. september og lýkur 18. nóvember á þessu ári. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.

Ísland - England (Laugardalsvöllur) - 5.9.2020 

Belgía - Ísland (Óvíst) - 8.9.2020

Ísland - Danmörk (Laugardalsvöllur) - 11.10.2020

Ísland - Belgía (Laugardalsvölur) - 14.10.2020

Danmörk - Ísland (Parken) - 14.11.2020

England - Ísland (Wembley) - 18.11.2020


Tengdar fréttir

Grátlegt jafntefli í fyrsta leik tímabilsins

Al Arabi, lið Heimis Hallgrímssonar og Arons Einars Gunnarssonar, fékk á sig jöfnunarmark í uppbótartíma er nýtt tímabil í Katar fór af stað, lokatölur 2-2.

Vona að þetta verði fjarstæðukenndur dagur

„Þetta gæti auðvitað orðið erfiður dagur fyrir okkur en ég er ekki hræddur,“ segir Erik Hamrén, landsliðsþjálfari í fótbolta, fyrir leik Íslands við England í Þjóðadeildinni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×