Innlent

Hressar og skemmtilegar nunnur í Stykkishólmi og Hafnarfirði

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar

Nunnurnar í Stykkishólmi, segja fátt betra en að búa á Snæfellsnesi þar sem þær iðka sína trú, auk þess að taka þátt í fjölbreyttu félagsstarfi á svæðinu. Þær fá stundum heimsókn frá nunnunum í Hafnarfirði.

Þrjár nunnur eru í Stykkishólmi að staðaldri en þegar þær voru heimsóttar voru fjórar nunnur úr Hafnarfirði í heimsókn hjá þeim. Nunnurnar tilheyra Maríureglunni – „Bláu systurnar“ eins og þær eru kallaðar. Systurnar hafa það hlutverk að sinna safnaðarlífi kaþólskra á þeim stöðum, sem þær búa.

„Hér er messað á hverjum degi. Það er tilbeiðslu stund líka á hverjum degi og systur eru að biðja hér tíðarbænir og kirkjan er alltaf opinn fyrir fólk að koma og biðja og sérstaklega á þessum Covid tíma, við erum að biðja sérstaklega, það er tilbeiðsla tvisvar á dag og svo eru allir velkomnir alltaf,“ segir systir Pentecostés, sem er frá Argentínu

Nunnunum líkar vel að búa í Stykkishólmi. „Já, það er svo flott að vera á Snæfellsnesi já, áfram Snæfellsnes, hér er mjög fallegt.“

Pentecostés segir að nunnurnar komi oft saman á hverjum degi til að biðja.

„Já, það er samband við Jesús, guð sem við eigum í bæninni en bæn fyrir okkur er eins og að anda, við getum ekki lifað án þess að anda. Við getum ekki lifað andlegu lífi okkar ef við biðjum ekki.“

Nunnurnar hafa mjög gaman af allri tónlist og eru duglegar að syngja á íslensku.

Systir Pentecostés, sem segir frábært að búa á Snæfellsnesi.Magnús Hlynur Hreiðarsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×