Fótbolti

Áfram markaþurrkur hjá Heimi, Aroni Einari og félögum í eyðimörkinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson var að klára sitt annað tímabil með liðið.
Heimir Hallgrímsson var að klára sitt annað tímabil með liðið. EPA-EFE/KHALED ELFIQI

Íslendingaliðið Al Arabi gerði markalaust jafntefli við Qatar SC í úrvalsdeildinni í Katar í dag og hefur enn ekki unnið leik eftir að keppnin hófst á ný eftir kórónuveiruhlé.

Leikur Al Arabi og Qatar SC var í lokaumferð deildarkeppninnar en Al Arabi vann 6 af 22 leikjum sínum og skoraði 28 mörk gegn 28.

Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, þjálfar lið Al Arabi og hefur gert það frá því í desember 2018.

Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn aftarlega á miðjunni í leikkerfinu 4-2-3-1. Heimir Hallgrímsson skipti út tveimur fremstu mönnum liðsins í leiknum en fékk ekki sigurmarkið að launum.

Þetta var fimmti leikur Al Arabi síðan að keppni hófst á nýjan leik í Katar en í þeim hefur Al Arabi gert tvö jafntefli og tapað þremur.

Áhyggjuefnið er vissulega markaleysið. Liðið hefur aðeins skorað eitt mark í þessum fimm leikjum og það mark kom úr vítaspyrnu.

Al Arabi endar í sjöunda sæti deildarinnar og var sex stigum á undan Qatar SC sem er í næsta æsti á eftir. Þrjú efstu liðin komust í Meistaradeild Asíu.

Al Arabi endar einu sæti neðar en á tímabilinu á undan og er með fjórum stigum minna en þá. Liðið fékk aftur á móti mun færri mörk á sig á þessu tímabili eða 28 á móti 41 í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×