Erlent

Vísa rússneskum erindreka úr landi vegna njósna

Samúel Karl Ólason skrifar
Utanríkisráðuneyti Noregs í Osló.
Utanríkisráðuneyti Noregs í Osló. Vísir/Getty

Utanríkisráðuneyti Noregs hefur ákveðið að vísa rússneskum erindreka úr landi. Sá hafði átt fundi með norskum manni sem handtekinn var um helgina og er grunaður um njósnir. Sendiherra Rússlands í Noregi hefur verið tilkynnt þessi ákvörðun en samkvæmt frá NRK starfaði erindrekinn í viðskiptadeild sendiráðsins.

Tilkynningin mun hafa borist í gær og hefur viðkomandi erindreki þrjá sólarhringa frá þeim tímapunkti til að yfirgefa Noreg.

Trude Maaseide, talskona ráðuneytisins, segir erindrekanum hafa verið vísað úr landi vegna þess að aðgerðir hans hafi ekki verið í takt við stöðu hans sem erindreka. Þeim sé skylt að fylgja reglum þeirra landa sem þeir starfa í og það hafi þessi ekki gert.

Njósnarinn sjálfur, Harsharn Singh Tathgar, er upprunalega frá Indlandi en er norskur ríkisborgari. Hann hefur búið og starfað í Noregi frá 1997 og frá 2012 hefur hann unnið hjá orkufyrirtækinu DNV GL.

Hann hefur aldrei haft heimild til að skoða ríkisleyndarmál. Ekki liggur fyrir hvaða leyndarmál hann færði Rússum eða hvaðan hann fékk þau.

Handtekinn á fundi með erindrekanum

Tathgar viðurkenndi við yfirheyrslur að hafa fært rússneskum erindreka ríkisleyndarmál og fengið greiðslu fyrir. Hann var handtekinn á laugardaginn þegar hann hitti viðkomandi erindreka á pítsuað í Osló.

Norðmenn hafa þó nokkrum sinnum vísað rússneskum erindrekum úr landi í gegnum árin. Síðast í mars 2018, í kjölfar árásarinnar á Skripal feðginin. Þá var rússneskum erindrekum vísað frá fjölmörgum ríkjum í Evrópu og Norður-Ameríku.

Árið 1998 var fimm rússneskum erindrekum vísað úr landi. Þeir voru sakaðir um að hafa reynt að fá norska stjórnmálamenn til að gerast útsendarar Leyniþjónustu Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×