Atvinnulíf

Skipu­lagið skipu­lagt kaos en drullu­skemmti­leg verk­efni

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Egill Jóhannsson framkvæmdastjóri Forlagsins er þriðji ættliðurinn í bókaútgáfu. Hann stefndi þó ekkert sérstaklega á að enda í geiranum. Egill segir skipulagið hjá sér skipulagt kaos.
Egill Jóhannsson framkvæmdastjóri Forlagsins er þriðji ættliðurinn í bókaútgáfu. Hann stefndi þó ekkert sérstaklega á að enda í geiranum. Egill segir skipulagið hjá sér skipulagt kaos. Vísir/Vilhelm

Egill Jóhannsson er vanafastur á morgnana, fær sér tvo bolla af kaffi, les blöðin og tölvupósta og reynir síðan að skipuleggja sig fyrir daginn þegar hann labbar í vinnuna. Egill reynir að hitta á börnin sín áður en þau fara í skólann en viðurkennir að það tekst ekki alltaf. Þrátt fyrir að vera þriðji ættliður í bókaútgáfu segist hann hafa endað þar fyrir slysni. Ólíkt því sem margir halda er mikið að gera núna hjá bókaútgáfendum, hreinsa þarf upp verkefnalistann frá hausti og horfa innávið fyrir reksturinn því þetta er eini tími ársins þar sem það er hægt.

Egill Jóhannsson framkvæmdastjóri Forlagsins situr fyrir svörum í kaffispjalli helgarinnar. Þar spyrjum við alltaf um hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og eins um hvenær fólk fer að sofa. Við spyrjum líka um verkefnin og skipulagið.

Egill, heldur þú að það sé hægt að vera með ákveðna tegund af „bisness“ í blóðinu?

„Ég skal ekki segja til um það, en ég held þó að það sé alveg á hreinu að ef maður elst upp í kringum ákveðinn „bissness“ þá er það óumflýjanlegt maður smitist með einum eða öðrum hætti. Ég er auðvitað af þriðju kynslóð bókaútgefenda og það var um fátt annað rætt á mínu heimili en útgáfuna.

En það var samt alls ekki svo að ég hafi alla tíð ætlað mér að verða bókaútgefandi eða að starfa í faginu. Það var eiginlega fyrir slysni að ég endaði í þessu. Ég ætlaði mér að taka smá hlé frá námi, en ílengdist og er hér enn.“

Egill leggur áherslu á svefn en segir að oft geti hann þó verið rysjóttur. Hann reynir að fara í rúmið fyrir miðnætti og vaknar flesta morgna klukkan átta.Vísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Þvert á það sem margir halda þá er ákaflega mikið að gera í útgáfunni þessar vikurnar. Þetta er í raun eini tími ársins þar sem maður getur leyft sér að horfa aðeins inn á við í rekstrinum, skipulagt og betrumbætt.

Eins er ansi margt sem maður ýtir á undan sér á haustin og á meðan jólavertíðinni stendur sem ég þarf að afgreiða núna. Þannig að það er satt að segja alveg brjálað að gera, eins og er reyndar allan ársins hring.“

En verkefnin eru langflest drulluskemmtileg, sem betur fer.“

Hvenær vaknar þú á morgnana? 

„Ég reyni að fara á fætur um klukkan átta.

Börnin eru orðin það gömul að þau sjá alveg um sig sjálf og koma sér í skólann, en ég reyni, ef ég get,  að vera kominn fram áður en þau halda af stað þó það takist nú ekki alltaf hreint.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Skipulagið mitt er eiginlega skipulagt kaos.

Ég geng annars til vinnu alla daga og nota þann tíma til þess að fara yfir verkefnin framundan, set mér markmið fyrir daginn og sömuleiðis markmið fyrir fundi sem ég kann að eiga þann dag. Næ að hita mig vel upp á leiðinni og kem yfirleitt fullur hugmynda, markmiða og orku í vinnuna.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Ætli ég teljist ekki frekar vanafastur á marga hluti og það á líka við um morgnana. Ég byrja alla daga, áður en ég held til vinnu, að fá mér tvo kaffibolla, renn yfir bæði Moggann og Fréttablaðið og skima yfir frétta- og samfélagsmiðla á netinu.

Oftast tengi ég mig vinnutölvunni og fer yfir tölvupósta og verkefnin sem eru framundan þann daginn.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Svefn er mér gríðarlega mikilvægur þó svo ég eigi nú stundum erfitt með að ná þeim svefni sem ég þarf á að halda. Ég á hins vegar afar auðvelt með að sofna og er iðulega steinsofnaður örfáum mínútum eftir að ég leggst á koddann, þó svefninn geti átt það til að vera rysjóttur.

En ég reyni að vera kominn í rúmið helst ekki mikið seinna en á miðnætti.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×