Fótbolti

Elías áfram á skotskónum í tíu marka leik | Aron skoraði aftur

Sindri Sverrisson skrifar
Elías Már Ómarsson hefur skorað í þremur leikjum í röð, alls fjögur mörk.
Elías Már Ómarsson hefur skorað í þremur leikjum í röð, alls fjögur mörk. vísir/getty

Það gerist ekki á hverjum degi að tíu mörk séu skoruð í fótboltaleik en það gerðist þegar Excelsior og Den Bosch mættust í hollensku B-deildinni í fótbolta í kvöld. Elías Már Ómarsson hélt uppteknum hætti og skoraði fyrir Excelsior í 6-4 sigri.

Elías skoraði fyrsta markið í þessum ótrúlega leik og hefur þar með skorað fjögur mörk í síðustu þremur leikjum Excelsior. Hann hefur alls skorað níu mörk í deildinni á leiktíðinni. Elías var valinn maður leiksins í kvöld.





Excelsior er í 7. sæti deildarinnar með 44 stig og á leið í umspil um sæti í úrvalsdeild eins og sakir standa (liðin í 3.-8. sæti fara í umspil). Den Bosch er í 11. sæti af 20 liðum.

Aron Sigurðarson skoraði einnig í kvöld í markaleik, í 5-3 útisigri Saint-Gilloise gegn OH Leuven í belgísku B-deildinni. Aron hefur því skorað í tveimur leikjum í röð en hann kom til Belgíu frá Start í Noregi í lok síðasta árs og hefur spilað sex leiki. Saint-Gilloise er í 4. sæti, stigi frá toppsætinu en búið að leika leik meira en hin liðin.

Í kvöld var Kristófer Ingi Kristinsson einnig á ferðinni í frönsku B-deildinni með Grenoble sem tapaði 1-0 á heimavelli gegn Chateauroux. Kristófer kom inn á sem varamaður á 82. mínútu. Grenoble er í 9. sæti með 35 stig, níu stigum frá umspili um sæti í efstu deild.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×