Erlent

Vill bara vera kallaður Harry hér eftir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Harry ávarpar ráðstefnuna í Edinborg í gær.
Harry ávarpar ráðstefnuna í Edinborg í gær. Vísir/Getty

Harry Bretaprins bað gesti á ferðaþjónusturáðstefnu í Edinborg í Skotlandi í gær að kalla sig „bara Harry“. Þá áréttaði fundarstjóri ráðstefnunnar hið sama við gesti er hún kynnti prinsinn upp í pontu: „Hann er skýr með það að við eigum bara að kalla hann Harry.“

Harry og eiginkona hans Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, greindu frá því í janúar að þau hygðust hverfa úr framlínu bresku konungsfjölskyldunnar, verja auknum tíma í Norður-Ameríku og verða fjárhagslega sjálfstæð. Parið mun hætta að sinna konungslegum skyldum sínum síðasta dag marsmánaðar.

Mikil spenna hefur verið í samskiptum hertogahjónanna og konungsfjölskyldunnar upp á síðkastið, nú síðast eftir að Harry og Meghan sendu frá sér tilkynningu þess efnis að konungsfjölskyldan hefði ekki neina lögsögu yfir notkun á orðinu „royal“ (í. konunglegur) á erlendri grundu.

Tilkynningin kom í kjölfar frétta um að þau Harry og Meghan myndu hætta að notast við vörumerkið „SussexRoyal“ á vordögum.

Í frétt BBC um breyttar áherslur Harrys í nafnamálum segir að hann muni halda áfram að vera prins, þrátt fyrir umræddar sviptingar. Harry hefði þó þegar tilkynnt að hann vildi frekar notast við titilinn „hertoginn af Sussex“.

Hertogahjónin munu missa réttinn til að titla sig hans- og hennar hátign þegar þau hverfa frá embættisskyldum sínum í vor. Þá munu þau einnig hætta að þiggja fjármuni frá konungshöllinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×