Sport

Sá yngsti frá upphafi til að ná því að verða bæði bestur í NFL og NFL-meistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kærustuparið Patrick Mahomes og  Brittany Matthews fagna sigri í leikslok í nótt. Þau eyddu saman tíma á Íslandi þegar hún lék með Aftureldingu.
Kærustuparið Patrick Mahomes og Brittany Matthews fagna sigri í leikslok í nótt. Þau eyddu saman tíma á Íslandi þegar hún lék með Aftureldingu. Getty/Elsa

Patrick Mahomes leiddi Kansas City Chiefs til sigurs í Super Bowl og það kom fáum á óvart að hann hafi verið kosinn mikilvægasti leikmaður úrslitaleiksins. Með því skrifaði hann NFL-söguna.

Kansas City Chiefs var tíu stigum undir þegar rúmar sex mínútur voru eftir en þá töfraði Patrick Mahomes fram frábærar sóknir á úrslitastund og Chiefs vann að lokum ellefu stiga sigur, 31-20.

Mahomes hefur verið duglegur að bæti metin á sínu stutta en strax glæsilega ferli. Hann bætti líka einu til viðbótar í nótt.

Patrick Mahomes varð þá yngsti leikmaðurinn í sögu NFL deildarinnar sem nær því að vera bæði mikilvægasti leikmaður deildarinnar (í fyrra) og vinna Super Bowl.



Mahomes var aðeins 24 ára og 138 daga í gær en hann bætti met Emmitt Smith sem náði þessari tvennu þegar hann var 24 ára og 260 daga.

Uppkoma Patrick Mahomes hefur verið ótrúleg á síðustu tveimur árum en það er ekki langt síðan hann eyddi tíma með kærustu sinni Brittany Matthews á Íslandi þegar hún spilaði knattspyrnu með Aftureldingu í Mosfellsbæ.



Nú er þessi strákur orðinn ein allra stærsta íþróttastjarna Bandaríkjanna og lítur um leið bara að vera byrja magnaðan feril. Hann mun samt halda titlinum tengdasonur Mosfellsbæjar á Íslandi.

Hæfileikarnir eru ótrúlegir en það er allt annað að kalla slíka töfra fram þegar mótlætið er mikið og pressan er mikil á þér á stærsta sviðinu. Frammistaða Patrick Mahomes í lok Super Bowl í nótt er því enn ein sönnun þess að hér fer enginn venjulegur leikmaður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×